Íslenski boltinn

Berg­lind Björg strax byrjuð að skora fyrir Blika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg er mætt aftur í grænt og strax farin að raða inn mörkum.
Berglind Björg er mætt aftur í grænt og strax farin að raða inn mörkum. Breiðablik

Breiðablikskonur byrjuðu vel í Lengjubikar kvenna í fótbolta en liðið vann 4-2 sigur á FH í fyrsta leik mótsins sem fór fram í Skessunni í Hafnarfirði í dag.

Blikar skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleiknum og þar voru að verki Birta Georgsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og fyrirliðinn Agla María Albertsdóttir. Öll mörkin komu á fyrstu tíu mínútum leiksins.

Markið hennar Berglindar Bjargar var mjög glæsilegt en hún skoraði með fallegu skoti fyrir utan teig. Hún er nýkominn aftur í Breiðablik eftir að hafa spilað lengi í atvinnumennsku og svo með Val.

Berglind Björg var því fljót að byrja að skora í Blikabúningnum og hún fékk líka færin til að bæta við mörkum.

Herdís Halla Guðbjartsdóttir varði víti frá FH-ingnum Valgerði Ósk Valsdóttur í fyrri hálfleiknum.

Hildur Katrín Snorradóttir (31. minúta) og Unnur Thorarensen Skúladóttir (67. mínúta) skoruðu mörk FH-liðsins.

Blikar skoruðu eitt mark í síðari hálfleik en það skoraði hin unga Edith Kristín Kristjánsdóttir á 85. mínútu en hún er aðeins sextán ára gömul.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Blikar tóku upp á leiknum fyrir samfélagsmiðla sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×