Deildarkeppni Evrópudeildar karla í knattspyrnu lauk í kvöld með 18 leikjum. Nokkuð var um spennu þar sem mörg lið áttu eftir að tryggja sér sæti meðal efstu átta liðanna, sem gefur farseðil í 16-liða úrslit.
Á sama tíma voru mörg lið að berjast um 9. til 24. sæti sem gefur farseðil í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.
Solskjær tók við Besiktas nýverið og vann frábæran 4-1 sigur á Athletic Bilbao í fyrsta leik. Sá sigur gaf liðinu von um að komast áfram en allt kom fyrir ekki eftir 1-0 tap gegn Twente í kvöld.
Með sigrinum hoppaði Twente upp í 23. sæti og sparkaði þar með Íslendingaliði Elfsborg úr keppni en sænska félagið tapaði 3-0 fyrir Tottenham Hotspur í kvöld.
Lazio og áðurnefnt Bilbao enduðu í toppsætunum tveimur með 19 stig hvort. Lazio tapaði þó fyrir Braga í kvöld á meðan Bilbao vann Plzen 3-1.
Þar á eftir kom Manchester United sem vann 2-0 útisigur á FCSB í kvöld. Rauðu djöflarnir eru eina liðið sem fór taplaust í gegnum deildarkeppnina.
Orri Steinn Óskarsson fékk þá tækifæri í byrjunarliði Real Sociedad og nýtti það heldur betur með því að skora bæði mörkin í 2-0 sigri. Sociedad endar í 13. sæti með 13 stig.
Hér að neðan má sjá stöðuna frá 1. til 24. sætis. Dregið verður í umspilið um sæti í 16-liða úrslitum á morgun. Drátturinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.
