Viktor lék einkar vel með íslenska landsliðinu sem endaði í 9. sæti á HM. Hann var til að mynda efstur í einkunnagjöf Vísis með 4,67 að meðaltali í þeim sex leikjum sem Ísland spilaði.
Samkvæmt opinberri tölfræði mótsins varði Viktor 67 af þeim 167 skotum sem hann fékk á sig á HM. Það gerir fjörutíu prósent markvörslu.
Einungis þrír markverðir eru með hærri hlutfallsmarkvörslu. Það eru Daninn Emil Nielsen (44 prósent), Frakkinn Samir Bellahcene (43 prósent) og Króatinn Dominik Kuzmanovic (43 prósent). Bellahcene lék reyndar aðeins fyrstu tvo leiki franska liðsins á mótinu, áður en hann meiddist.
Tveir aðrir markverðir eru með jafn góða hlutfallsmarkvörslu og Viktor; Brassinn Rangel da Rosa og Norðmaðurinn Torbjørn Bergerud.
Besta hlutfallsmarkvarslan á HM
- Emil Nielsen (Danmörk) - 44%
- Samir Bellahcene (Frakkland) - 43%
- Dominik Kuzmanovic (Króatía) - 43%
- Viktor Gísli Hallgrímsson (Ísland) - 40%
- Rangel da Rosa (Brasilía) - 40%
- Torbjørn Bergerud (Noregur) - 40%
- David Späth (Þýskaland) - 39%
- Marcel Jastrzebski (Pólland) - 38%
- Andreas Wolff (Þýskaland) - 36%
- Urban Lesjak (Slóvenía) - 36%
Viktor, sem verður 25 ára á árinu, var að ljúka sínu sjötta stórmóti með íslenska landsliðinu. Hann var valinn í úrvalslið EM fyrir þremur árum.