Innlent

Mal­bika veginn að Ólafsdal í Gils­firði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Skólahúsið í Ólafsdal var reist árið 1896. Myndin er frá árinu 2017.
Skólahúsið í Ólafsdal var reist árið 1896. Myndin er frá árinu 2017. Arnar Halldórsson

Vegagerðin hefur boðið út endurbyggingu sjö kílómetra vegarkafla á Steinadalsvegi í Dalabyggð. Í verkinu felast endurbætur á núverandi vegi ásamt vegtengingum og frágangi.

Í útboðsauglýsingu kemur fram verkinu skuli að fullu lokið um miðjan ágústmánuð á næsta ári, 2026. Frestur til að skila inn tilboðum er til 4. febrúar næstkomandi.

Áður en Gilsfjarðarbrú stytti leiðina um fjörðinn var vegarkaflinn hluti Vestfjarðavegar. Hann liggur um sunnanverðan Gilsfjörð úr Saurbæ og að gamla búnaðarskólanum í Ólafsdal. Þar hafa Minjavernd og Ólafsdalsfélagið í samvinnu við sveitarfélagið Dalabyggð undanfarin ár staðið að endurreisn hins fornfræga staðar. Uppbygging vegar með bundnu slitlagi er talin ein helsta forsenda þess að hægt sé að byggja þar upp menningartengda ferðaþjónustu.

Gamla skólahúsið í Ólafsdal þótti ein veglegasta bygging landsins.Arnar Halldórsson

Starfshópur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins lagði nýlega til að stofnaður yrði þjóðgarður í Dalabyggð. Horft yrði til þess að gestastofa þjóðgarðsins yrði í Ólafsdal.

Á heimasíðu Ólafsdalsfélagsins er Ólafsdal lýst sem einum merkasta menningarminjastað á Vesturlandi og við Breiðafjörð. Búnaðarskólinn sem hjónin Torfi Bjarnason og Guðlaug Zakaríasdóttir ráku þar á árunum 1880 til 1907 er talinn hafa markað upphaf búháttabyltingar til sveita á Íslandi. Gamla skólahúsið þótti með veglegustu byggingum landsins, og stendur enn í dag uppi sem minnisvarði um þetta merka brautryðjendastarf.

Byggingar búnaðarskólans í Ólafsdal mynduðu lítið þorp.Stjórnarráðið

Á heimasíðu Minjaverndar kemur fram að unnið hafi verið að endurbyggingu og endurgerð fjögurra húsa sem fyrir voru; Smíðastofu, Mjólkurhúss, Fjóss og Haughúss. Jafnframt hafi verið reistar tvær byggingar sem ekki voru fyrir, Jarðskemma nokkru frá húsunum og Lækjarhús sem hýsa muni lager og tæknirými svæðisins. Þá hafi verið unnið að viðgerðum og endurbyggingu Skólahússins sjálfs.

Samhliða þessum framkvæmdum sé unnið við stígagerð um Ólafsdal, fornleifauppgröft víkingaaldarskála innar í dalnum og uppsetningu á merkingum og upplýsingum um líf og starf í dalnum frá upphafi landnáms til nútíma.

Stöð 2 fjallaði um endurreisn Ólafsdals í þessari frétt árið 2017:

Einnig var fjallað um Ólafsdal í þættinum Um land allt árið 2017 þar sem Svavar Gestsson lýsti hugmyndum sínum um gullna söguhringinn um Dalabyggð:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×