Enski boltinn

Eng­lands­meistararnir festa kaup á Khusa­nov

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Abdukodir Khusanov (til vinstri) í leik gegn Panathinaikos.
Abdukodir Khusanov (til vinstri) í leik gegn Panathinaikos. EPA-EFE/PANAGIOTIS MOSCHANDREOU

Hinn tvítugi Abdukodir Khusanov er genginn í raðir Englandsmeistara Manchester City. Hann kemur frá Lens í Frakklandi.

Pep Guardiola er stórhuga og vill styrkja lið sitt til muna áður en félagaskiptaglugginn lokar um komandi mánaðarmót. Lið hans hefur glímt við mýmörg vandamál í öftustu línu það sem af er leiktíð og því vildi Spánverjinn fá nýjan miðvörð til félagsins.

Khusanov skrifar undir fjögurra og hálfs árs samning í Manchester með möguleika á árs framlengingu sem myndi þýða að hann væri samningsbundinn Man City til ársins 2030.

Miðvörðurinn er í ódýrari kantinum ef miðað er við þá leikmenn sem félag eins og City hefur keypt undnafarin ár. Hann kostar 33 og hálfa milljón punda eða 5,8 milljarða íslenskra króna.

Khusanov á að baki 18 A-landsleiki fyrir Úsbekistan og er fyrsti Úsbekinn til að spila í ensku úrvalsdeildinni. Samkvæmt Sky Sports keypti Lens leikmanninn á aðeins 84 þúsund pund eða fjórtán og hálfa milljón íslenskra króna fyrir 18 mánuðum síðan.

„Ég er í skýjunum með að vera ganga í raðir Manchester City, félags sem ég hef notið þess að horfa á. Pep Guardiola er einn besti þjálfari allra tíma og ég get ekki beðið eftir að læra af honum og bæta mig enn frekar“ sagði miðvörðurinn í viðtali við vefsíðu Man City.

Englandsmeistararnir eru í 4. sæti með 38 stig að loknum 21 leik, tólf stigum á eftir toppliði Liverpool sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×