Allir þessir þrír lykilmenn eru að renna út á samningi í sumar og hafa nú leyfi til að byrja að ræða við önnur félög.
Van Dijk hefur verið jákvæður með nýjan samning fyrir sig, Salah heldur því fram að hann sé á síðasta tímabilinu hjá Liverpool og Alexander-Arnold er stanslaust orðaður við Real Madrid.
Fowler er hins vegar með eigin kenningu um þessa samningslausu leikmenn hjá Liverpool.
„Ég er reyndar með smá kenningu og ég veit ekki hvort þetta sé svo fjarri sannleikanum,“ sagði Robbie Fowler í myndbandi á miðlum Prime Video Sport.
„Ég held að tveir af þeim hafi þegar skrifað undir sinn samning en kannski hefur einn ekki gert það ennþá. Kannski getur félagið ekki komið fram og sagt frá þessum samningum þeirra vegna þess að þá lítur þessi eini svo illa út,“ sagði Fowler.
„Það er möguleiki á því að málin hafi þróast þannig. Er eitthvað vit í þessari kenningu minni,“ spurði Fowler og bætti svo við:
„Ef tveir koma fram og segja að þeir hafi skrifað undir samning þá setur það svo mikla pressu á þennan þriðja,“ sagði Fowler. Miðað við þetta og hegðunina hjá Salah þá lítur út fyrir að Egyptinn sé þessi eini.
Á sama tíma bíða stuðningsmenn Liverpool eftir fréttum af samningamálum leikmannanna þriggja. Það gengur vel inn á vellinum en það væri sárt fyrir marga að sjá á eftir þessum öflugu leikmenn yfirgefa félagið frítt.
Robbie Fowler er goðsögn hjá félaginu og einn mesti markaskorari sögunnar. Hann var uppalinn hjá Liverpool og er næstmarkahæsti leikmaðurinn hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi með 128 mörk.