Körfubolti

Ægir: Mjög stórt fyrir klúbba að komast í þessa leiki

Árni Jóhannsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson skilaði heldur betur framlagi í kvöld til að sigla sigrinum heim.
Ægir Þór Steinarsson skilaði heldur betur framlagi í kvöld til að sigla sigrinum heim. vísir/Jón Gautur

Ægir Þór Steinarsson var frábær í kvöld þegar Stjarnan tryggði sig inn í undanúrslit VÍS bikarsins með sigri á grönnum sínum í Álftanesi. Leikurinn endaði 88-100 en góður þriðji leikhluti Stjörnunnar fór lang með sigurinn í kvöld þegar munurinn fór upp í 20 stig.

„Þetta er mjög stórt fyrir klúbba að komast í þessa leiki“, sagði Ægir þegar hann var spurður út í tilfinninguna við að komast í undanúrslit bikarsins. Hann hélt áfram:

„Þetta gefur stemmningu á miðju tímabili. Risastórir leiki fyrir reksturinn og stemmninguna.“

Stjörnumenn eru efstir í Bónus deildinni og hafa gert margt rétt í vetur en hvað voru þeir að gera rétt í dag?

„Mér fannst við vera, eitthvað sem okkur hefur vantað í þessum leikjum eftir áramót. Það hefur vantað varnarleik og hraða sóknarlega. Mér fannst við vera með það fyrir utan síðustu 10 á móti svæði. Þá vorum við staðir og vorum að reyna að verja forystuna og svo framvegis.“

Eins og Ægir nefnir þá gáfu Stjörnumenn færi á sér, reyndu að verja forystunu í lokaleikhlutanum. Er það óumflýjanlegt að lið lendi í þessu þegar munurinn er orðinn þægilegur?

„Það er bæði og. Þú vilt ekki að þeir komist á sprett og fari að hlaupa upp og niður. Við hefðum getað verið áræðnari á körfuna, vorum svolítið bara í handboltanum þannig að það er alltaf eitthvað til þess að bæta.“

Stjarnan tapaði síðasta leik og það gaf Stjörnunni smá inn í þennan leik.

„Við lentum bara á einhverjum vegg sem var bara gott að lenda í. Við þurftum að finna lausnir og sjálfstraust á ný og það er bara gott.“

Hvernig er framhaldið hjá Stjörnunni að mati Ægis?

„Það er bara blússandi gangur, við erum komnir í undanúrslit og leikirnir halda áfram að koma. Þannig að það er bara geggjað.“

Ægir brosti út í annað þegar hann var spurður að því hvort það væri skrýtið þegar honum væri gefið skotið en í þriðja leikhluta setti hann nokkra þrista niður sem voru galopnir.

„Nei. Það er búið að vera að gefa mér skotið í nokkur ár. Stundum hittir maður og ekki og stundum verður maður að finna lausnir. Þannig að menn verða að velja hvern maður ætlar að dekka og þetta er bara skákin sem þetta er.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×