Um er að ræða þrjár vélritaðar blaðsíður með handskrifuðum glósum á tveimur A4 blöðum. Handritið eða drögin að laginu voru í eigu bandaríska tónlistarblaðamannsins Al Aronowitz, sem seldi um 50 dýrgripi í sinni eigu á uppboðinu um helgina. The Guardian segir söguna af því hvernig blöðin komust í eigu hans.
Í mars 1964 vaknaði Aronowitz og sá Dylan, sem var í heimsókn hjá honum, sofandi í sófanum og rak augun í samankrumpuð blöð í ruslatunnunni nálægt.
Dylan, sem þá var 22 ára, hafði eytt nóttinni í að skrifa textann nokkrum sinnum í mismunandi útgáfum og svo hent eldri útgáfunum. Aronowitz hirti blöðin.

Bob Dylan byrjaði að semja Mr. Tambourine man í febrúar 1964, og markar lagið að vissu leyti vatnaskil í hans ferli, þar sem hann segir skilið við pólitíska ádeilu og baráttusöngva upp að vissu marki og fer að semja óræðari, súrrealískari og innhverfari texta.
Lagið er eitt hans frægasta verk og hafa ótal tónlistarmenn tekið upp og gefið út ábreiður af því.
Á uppboðinu seldist einnig málverk eftir Dylan frá árinu 1968 á 36 milljónir, og telecaster árgerð 1983 sem hafði verið í hans eigu seldist á 31 milljón.
Vefsíða uppboðsins býður upp á frekari upplýsingar.