Sport

Djovokic segir að það hafi verið eitrað fyrir sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Novak Djokovic kveðst handviss um að eitrað hafi verið fyrir sér eftir að hann neitaði að láta bólusetja sig fyrir Opna ástralska meistaramótið 2022.
Novak Djokovic kveðst handviss um að eitrað hafi verið fyrir sér eftir að hann neitaði að láta bólusetja sig fyrir Opna ástralska meistaramótið 2022. getty/Daniel Pockett

Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic segir að það hafi verið eitrað fyrir sér þegar honum var haldið á hótelherbergi í Melbourne fyrir þremur árum.

Djokovic neitaði að láta bólusetja sig fyrir Opna ástralska meistaramótið og var á endanum vísað úr landi.

Meðan hann beið eftir dómsúrskurði var honum haldið á hótelherbergi í Melbourne. Og þar segir hann að eitrað hafi verið fyrir sér.

„Ég hef aldrei talað opinberlega um þetta áður. En þegar ég kom heim komst ég að því að ég var með mjög hátt hlutfall málma í blóðinu. Mjög mikið af blýi og kvikasilfri,“ sagði Djokovic í viðtali við GQ.

Hann er handviss um að efnunum hafi verið komið fyrir í matnum sem hann borðaði á hótelinu.

„Það er eina leiðin,“ sagði Serbinn sem varð mjög veikur eftir heimkomuna.

„Þetta var eins og flensa, bara venjuleg flensa. En eftir nokkra daga var ég orðinn svo slappur,“ sagði Djokovic.

Honum var vísað úr landi degi áður en Opna ástralska hófst 2022. Djokovic vann mótið 2023 og komst í undanúrslit í fyrra. Hann hefur leik á mótinu í ár á sunnudaginn þegar hann mætir hinum nítján ára Nishesh Basavareddy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×