Enski boltinn

Chelsea vill fá Guehi aftur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Marc Guehi í leik með Crystal Palace á tímabilinu.
Marc Guehi í leik með Crystal Palace á tímabilinu. Vísir/Getty/Julian Finney

Forráðamenn Chelsea hafa áhuga á því að klófesta aftur varnarmanninn Marc Guehi frá Crystal Palace. Félagið seldi leikmanninn til Palace á 18 milljónir punda árið 2021.

BBC greinir frá. Guehi á 18 mánuði eftir af samningi sínum við Crystal Palace en hann gerði fimm ára samning við félagið á sínum tíma.

Markmið Chelsea í janúarglugganum er að semja við miðvörð og ekki minnkuðu líkurnar á því þegar Wesley Fofana meiddist á dögunum og segir Enzo Maresca þjálfari liðsins að hann verði ekki meira með liðinu á tímabilinu.

Þá er Benoit Badiashile einnig að glíma við meiðsli og er búist við honum til baka í febrúar.

Guehi kom aðeins við sögu í tvígang með aðalliði Chelsea og báðir leikirnir í enska deildarbikarnum árið 2019. Síðan þá hefur hann meðal annars leikið 22 landsleiki fyrir enska landsliðið.

Palace hafnaði fjórum tilboðum frá Newcastle í leikmanninn í sumar en besta tilboðið hljóðaði upp á 65 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×