Körfubolti

Medina með rosatölur þegar Hamar vann toppliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjinn Jose Medina var frábær í sigri Hamars í kvöld en hann skoraði níu þriggja stiga körfur í leiknum.
Spánverjinn Jose Medina var frábær í sigri Hamars í kvöld en hann skoraði níu þriggja stiga körfur í leiknum. Vísir/Vilhelm

Hamarsmenn eru komnir upp að hlið Ármenningum á toppi 1. deildar karla í körfubolta eftir ellefu stiga sigur í toppslagnum í kvöld.

Hamar fékk Ármann í heimsókn í Hveragerði og vann 100-89 sigur eftir að hafa verið sautján stigum yfir í hálfleik, 62-45.

Hamar hefur nú unnið fimm leiki í röð og alla sjö heimaleiki sína í vetur.

Bæði lið hafa nú unnið níu af tólf leikjum og þau eru jöfn á toppnum með átján stig.

Ármann vann fyrri leik liðanna með þrettán stigum og heldur því toppsætinu á innbyrðis leikjum.

Sindri frá Hornafirði er tveimur stigum á eftir en á líka tvo leiki inni á efstu tvö liðin.

Spánverjinn Jose Medina átti frábæran leik fyrir Hamar í kvöld en hann var með 40 stig og 13 stoðsendingar í leiknum. Jaeden King skoraði 26 stig og gamli karlinn Fotios Lampropoulos var með 15 stig og 11 fráköst.

Adama Darboe var atkvæðamestur hjá Ármanni með 19 stig og Cedrick Bowen skoraði 16 stig.

Hamar-Ármann 100-89 (35-23, 27-22, 17-20, 21-24)

Hamar: Jose Medina Aldana 40/6 fráköst/13 stoðsendingar, Jaeden Edmund King 26, Fotios Lampropoulos 15/11 fráköst/5 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 9/6 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 6/6 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 4/7 fráköst.

Ármann: Adama Kasper Darboe 19/6 stoðsendingar, Cedrick Taylor Bowen 16/5 fráköst, Jaxson Schuler Baker 14/8 fráköst, Kristófer Breki Björgvinsson 11/4 fráköst, Frosti Valgarðsson 11, Arnaldur Grímsson 10/9 fráköst, Kári Kaldal 6, Magnús Dagur Svansson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×