Íslenski boltinn

„Himin­lifandi“ eftir að hafa landað fyrir­liða Fylkis

Sindri Sverrisson skrifar
Eva Rut Ásþórsdóttir með fyrirliðabandið í leik gegn Tindastóli á síðustu leiktíð.
Eva Rut Ásþórsdóttir með fyrirliðabandið í leik gegn Tindastóli á síðustu leiktíð. vísir/HAG

Þór/KA hefur tryggt sér liðsstyrk fyrir næstu leiktíð í Bestu deild kvenna í fótbolta með því að fá Evu Rut Ásþórsdóttur frá Fylki.

Eva Rut hefur verið fyrirliði Fylkis síðustu þrjú ár og á heimasíðu Þórs/KA er henni lýst sem kröftugum miðjumanni, líkamlega sterkum, sem geti látið til sín taka jafnt í vörn og sókn. Þá sé hún með góðan leikskilning, marksækin og með frábæra spyrnutækni.

Eva Rut, sem er 23 ára, lék 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skoraði í þeim fimm mörk. Hún kemur upphaflega úr Aftureldingu en hefur leikið með Fylki undanfarin fimm tímabil.

Fylkir féll úr Bestu deildinni á síðustu leiktíð en Eva Rut lék 54 leiki fyrir liðið í efstu deild, og skoraði í þeim 12 mörk. Þá hefur hún leikið 46 leiki í næstefstu deild og skorað 14 mörk, og hún lék ung 16 leiki í C-deild með Aftureldingu, og skoraði tvö mörk.

„Mikill fengur fyrir okkur“

„Við erum himinlifandi með að fá Evu til okkar í Þór/KA,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA, á heimasíðu liðsins.

„Eva er fjölhæf með mikla hæfileika og reynslu sem á eftir að smellpassa inn í okkar lið. Ég er sannfærður um að Eva á eftir að taka næsta skref á sínum ferli hérna hjá okkur ásamt því að gera liðið okkar enn betra. Þetta er mikill fengur fyrir okkur og við hlökkum mikið til að vinna með henni,“ segir Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×