Fótbolti

Víkingar minnast vinar sem lést á 27 ára af­mæli sínu

Sindri Sverrisson skrifar
Michael Newberry var í stóru hlutverki hjá Víkingi Ólafsvík árin sem hann spilaði á Íslandi.
Michael Newberry var í stóru hlutverki hjá Víkingi Ólafsvík árin sem hann spilaði á Íslandi. Facebook/@vikingurol

Enski fótboltamaðurinn Michael Newberry, sem lék í þrjú ár á Íslandi, er látinn, aðeins 27 ára að aldri. Víkingur Ólafsvík og enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle eru á meðal þeirra sem minnast varnarmannsins.

Newberry var leikmaður Cliftonville á Norður-Írlandi þegar hann lést, en hann átti 27 ára afmæli í dag.

Newberry var uppalinn hjá Newcastle en lék svo með Víkingi Ólafsvík á árunum 2018-2020, í næstefstu deild hér á landi. Hann lék alls sextíu deildarleiki fyrir Ólsara og var í lykilhlutverki. Hann fór svo af Snæfellsnesinu og til Norður-Írlands þar sem hann lék með Linfield í þrjú ár og skipti svo yfir til Cliftonville á þessu ári.

Ljóst er að Víkingar minnast góðs vinar eins og lesa má úr færslu félagsins, framkvæmdastjórans Þorsteins Hauks Harðarsonar og stuðningsmannsins Viðars Inga Péturssonar.

Hið sama er að segja um Newcastle sem vottar fjölskyldu Newberry samúð sína og óskar þess að hann hvíli í friði.

Leikjum Cliftonville og Linfield sem fara áttu fram í kvöld var báðum frestað og í tilkynningu á vef Cliftonville segir að allir hjá félaginu séu í sárum.

„Við vottum allri fjölskyldu og vinum Michaels samúð okkar, sem og öllum þeim fjölda liðsfélaga sem hann átti á ferlinum og stuðningsmönnum sem verða hryggir yfir þessum átakanlegu tíðindum. Hvíldu í friði, Newbs,“ sagði í tilkynningu Cliftonville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×