Sport

Littler á­nægður að geta sýnt grimmdina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler fagnar af innlifun.
Luke Littler fagnar af innlifun. getty/Zac Goodwin

Pílukastarinn ungi, Luke Littler, segir að hann þurfi að vera miskunnarlaus þegar hann er að keppa.

Littler tryggði sér sæti í sextán manna úrslitum á heimsmeistaramótinu í pílukasti með 4-1 sigri á Ian White í gærkvöldi.

„Mér líður eins en það er gott fyrir mig að sýna að ég get verið miskunnarlaus,“ sagði Littler eftir viðureignina gegn White.

„Ég er ekki alltaf góði gæinn uppi á sviði. Enginn er þannig en það er alltaf gott að vera ákveðinn. Ian hefur verið lengi að. Hann spilaði við afa minn! En fyrir mig var gott að sýna miskunnarleysi, sérstaklega á síðustu pílunni.“

White lét Littler hafa fyrir hlutunum í gær og strákurinn var ánægður að vinna leikinn.

„Þetta var betra en í síðustu viku, kannski ekki hvað varðar frammistöðuna en fyrir mig og sjálfstraustið. Það var erfitt að komast í gegnum Ian,“ sagði Littler.

„Það er alltaf gott að vera prófaður þegar þú kemur þér áfram á HM. Þú vilt eiginlega ekki fara auðveldu leiðina. Auðvitað væri það gott en þegar þú færð svona áskorun verðurðu að sýna úr hverju þú ert gerður, fyrir þig og áhorfendur.“

Littler mætir Ryan Joyce í sextán manna úrslitum annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×