Enski boltinn

Skila­boð frá Klopp minntu hann á á­fangann: „Við elskum hann“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jones fagnar marki sínu í gær.
Jones fagnar marki sínu í gær. Liverpool FC/Liverpool FC via Getty Images

Curtis Jones, miðjumaður Liverpool, lék í gær sinn hundraðasta leik fyrir félagið og hélt upp það með marki í 3-1 sigri á Leicester. Jones hafði þó ekki hugmynd um áfangann fyrr en hans gamli stjóri benti honum á það.

Jones byrjaði á miðju Liverpool í gær þar sem Dominik Szoboszlai fékk hvíld. Hann nýtti tækifærið með því að skora annað mark Liverpool snemma í síðari hálfleik til að veita liðinu 2-1 forystu. Leikurinn var sá hundraðasti sem þessi 23 ára leikmaður spilar fyrir Liverpool. Það er staðreynd sem hann var ekki meðvitaður um, þar til hann fékk skilaboð frá Jürgen Klopp, fyrrum knattspyrnustjóra Liverpool.

„Ég fór í símann eftir leik og sá þessi hefðbundnu skilaboð frá fjölskyldunni. Svo sá ég skilaboð frá Klopp: „Til hamingju með hundraðasta leikinn,“ segir Jones og bætir við:

„Ég hugsaði: Um hvað er hann að tala? Ég sá í kjölfarið á Instagram að þetta hefði verið hundraðasti leikurinn í úrvalsdeildinni. Ég er mjög stoltur af því.“

Klopp sé enn í sambandi við leikmenn liðsins, sem dái hann enn, þrátt fyrir brottför Þjóðverjans í sumar.

„Svona er Klopp. Hann heldur enn sambandi við allt liðið. Hann er frábær gaur og við elskum hann,“ segir Jones.

Áðurnefndur Szobozslai var hvíldur í gær en kom inn á lokakaflanum. Líkast til sá Arne Slot, þjálfari Liverpool, fyrir sér að Ungverjinn myndi byrja í stað Jones er Liverpool mætir West Ham á sunnudaginn kemur. Gult spjald sem sá ungverski fékk eftir innkomuna í gær sendi hann aftur á móti í leikbann og því líklegt að Jones spili annan leikinn í röð á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×