Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Klukkan 07:12 þegar börnin eru hjá mér annars reyni ég að vakna vekjarklukkulaus og þá er það einhvers staðar á milli klukkan sjö og átta. En auðvitað vakna ég reglulega á nóttunni þökk sé breytingaskeiðinu.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Segi vekjaranum að grjóthalda kjafti, rifja upp drauminn minn svo ég festi hann í minninnu og kyssi svo þann sem kúrir hjá mér, líklegast aðeins of oft en góðu hófi gegnir.“
Hvaða jólasveini líkist þú helst?
Ég er Grýla, mamma jólasveinanna, ég kem með jólin en ég get einnig fjarlægt jólin ef mér svo sýnist, ég er oft með úfið hár sem stendur í allar áttir, ég get verið stór og fyrirferðamikil, ég hata þrif og er nátengd náttúrunni, svo ég tengi við grýlu-eðlið sem ég vona að vakni hjá flestum konum uppúr breytingaskeiðinu.
Svo kalla börnin mín mig stundum Grýlu.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég var að gefa út fyrstu bókina í þríleik og heitir sú skrudda Tryllingur. Svo ég er að árita, sendast með bækur um allan bæ og lesa upp. Nú og auðvitað undirbúa bók 2 - Frelsi.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Moka öllum út af heimilinu, kveiki á kertum, hita kaffi, rista brauð, flóa mjólk, síminn á silent, slekk á internetinu, og sest svo í stólinn minn og ber á lyklaborðið til klukkan 11.30 þegar hugurinn reikar annað.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
Ég er hrifin af því að vera komin upp í alls ekki seinna en klukkan tíu og stundum er ég sofnuð örfáaum sekúndum seinna en stundum hangi ég til að ganga ellefu en ég er engin næturugla og elska minn níu tíma svefn þar sem ég ferðast um heima og geima í draumalandinu.“