Innlent

Jóhannes Þór svekktur og sár vegna skrifa þing­manns Mið­flokksins

Jakob Bjarnar skrifar
Jóhannes Þór lýsir yfir vanþóknun á skrifum Snorra Mássonar sem gagnrýndi kæru sem Eldur Smári má sæta fyrir hatursorðræðu.
Jóhannes Þór lýsir yfir vanþóknun á skrifum Snorra Mássonar sem gagnrýndi kæru sem Eldur Smári má sæta fyrir hatursorðræðu. vísir/vilhelm

Heitar umræður hafa nú sprottið á síðu Snorra Mássonar þingmanns Miðflokksins eftir að hann birti þar grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið og birti í morgun. Jóhannes Þór Skúlason hefur stigið fram og lýst yfir vanþóknun á skrifunum.

„Það hryggir mig meira en orð fá lýst ef þingmenn Miðflokksins ætla að taka sér opinberlega stöðu við hlið Elds Smára og skoðanabræðra hans, eins og þessi grein gefur því miður til kynna,“ segir Jóhannes Þór framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í athugasemd við færslu Snorra.

Gagnrýnir kæru Samtakanna ´78

Jóhannes Þór, sem hefur komið úr skápnum sem tvíkynhneigður maður, var um árabil einn helsti samverkamaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Jóhannes var aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra  Framsóknarflokksins um árabil, og var aðstoðarmaður hans jafnframt eftir að Sigmundur varð formaður Miðflokksins. 

Jóhannes lýsir yfir vanþóknun á skrifum Snorra Mássonar þingmanns Miðflokksins. Greinina telur Jóhannes Þór lýsa vanþekkingu á stöðu transfólks á Íslandi.

Í greininni, sem Snorri endurbirtir á Facebook-síðu sinni, gagnrýnir hann harðlega kæru sem Eldur Smári Kristinsson, frambjóðandi Lýðræðisvaktarinnar, hefur mátt sæta af hálfu Samtakanna ´78. 

Snorri vitnar í Eld:

„Alþingi heldur að karlmenn geti fætt börn. Þessi lög eru í bága við bæði barnasáttmála SÞ og í bága við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar rétt barns til þess að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Manneskjur sem fæða börn kallast konur. Konur sem fæða börn eru alltaf líffræðilegar mæður barna sinna. Alveg óháð hvað vanstillt Alþingi segir.“

Misbýður málflutningur Snorra

Snorri segir að fyrir þetta hafi Eldur verið kærður til lögreglu og sakaður um hatursorðræðu. Eldur var reyndar kærður fyrir ýmis ummæli önnur eins og sjá má að neðan.


Ummælin sem Eldur er kærður fyrir

Hér fyrir neðan má lesa ummælin sjö sem Eldur er kærður fyrir. Ummæli tvö og þrjú hafa verið þýdd yfir á íslensku úr ensku. Lesa má þau ummæli á frummálinu í sjálfri kærunni sem er neðst í fréttinni:

19. nóvember 2022: „Það er okkar upplýsta skoðun að hér átti að greiða götur kynjafræðinga og trans öfgasinna til að gera ólögráða börn að lyfjaþrælum fyrir lífstíð.“

1. júní 2023: „Það er þessi mánuður aftur, fólk. Nú munu öll stórfyrirtækin breyta lógóum sínum til að friða alla litlu führer-ana í réttmætingarsértrúarsöfnuðinum og við munum ekkert heyra annað en trans, trans, trans, translesbíur, stelputyppi þetta og hitt og allt í nafni fjölbreytni og samúðar. Þau elska 1939-Berlínar-stíls-innréttingar er það ekki?“

29. ágúst 2023: „Ég meina, þessi drusla! Að nota smábörn til að fullnægja augljósum afbrigðilegum kynlífsblætum í mönnum sem kallast b-a-r-n-a-g-i-r-n-d!“

2. apríl 2024: „Þessi „löngun“ er kynferðislegt blæti sem kallast „autogynephilia“ á ensku, en ég hef sjálfur íslenskað hugtakið í „kvensjálfsímyndunarblæti“. Þegar karlmenn eru farnir að nota UNGABÖRN til þess að sinna kynferðislegum pervertskap sínum, þá erum við kominn í algjöra botnleðju. Hversu djúp er hún og hversu meðvirkt er samfélagið til í að vera!?“

3. apríl 2024: „Alþingi heldur að karlmenn geti fætt börn. Þessi lög eru í bága við bæði barnasáttmála SÞ og í bága við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar rétt barns til þess að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Manneskjur sem fæða börn kallast konur. Konur sem fæða börn eru alltaf líffræðilegar mæður barna sinna. Alveg óháð hvað vanstillt Alþingi segir.“

9. apríl 2024: „Af hverju eru Samtökin '78 að grooma 10 ára krakka í 5.bekk? Hversu lengi ætlar fólk að vera meðvirkt?“

8. maí 2024: „Sumir láta sér ekki nægja að koma fram fyrir þjóð sína, heldur veifa fána satanísks sertrúarsafnaðar sem vill helst gelda eins mörg börn og mögulegt er. #FreakShow #Eurovision2024 #12stig“


 Vísir hefur fjallað ítarlega um málið.

Snorri vill meina að málið snúist um tjáningarfrelsi og hann segir jafnframt það skipta máli að sá sem kærir séu ríkisstyrkt samtök á borð við Samtökin ´78.

„En samtök sem njóta eins ríks fjárstuðnings frá ríkisvaldinu verða að gæta sérstaklega að ábyrgð sinni og blanda ekki saman lögmætum viðhorfum og meintri hatursorðræðu. Þar eru stjórnvöld komin ískyggilega nálægt beinum tilraunum til að refsa borgurum fyrir tjáningu,“ segir meðal annars í grein Snorra sem sjá má í heild sinni hér neðar.

Jóhannesi misbýður þetta atriði málflutnings Snorra og lætur það í ljós í athugasemd á Facebook-síðu Snorra.

„Það er verulega umhugsunarvert þegar þingmaður stígur fram til að verja sérstaklega mann sem hefur árum saman barist gegn mannréttindum og tilverurétti jaðarsetts minnihlutahóps í samfélaginu. Það er ekki síður furðulegt að þingmaður skuli telja það skringilegt að samtök sem hafa barist fyrir mannréttindum hinsegin fólks í samfélaginu í tæpa hálfa öld skuli rísa upp til varna fyrir trans fólk, hvort sem það er á samfélagsmiðlum eða annars staðar.“

Samtökin ´78 ekki í neinni valdastöðu í samfélaginu

Þá segir Jóhannes Snorra fara með fleipur, Samtökin ´78 séu ekki hluti ríkisvaldsins né hafa þau neins konar valdastöðu í samfélaginu.

„Þau eru þvert á móti samtök fólks sem hefur aldrei verið í valdastöðu í samfélaginu og hefur þurft að berjast fyrir lagalegum réttindum og samfélagslegu samþykki til jafns við aðra í samfélaginu með kjafti og klóm í tugi ára. Sú staðreynd að þú sem alþingismaður birtir þessa grein sýnir svart á hvítu að sú barátta stendur enn yfir.“

Jóhannes segir Samtökin '78 telji að þessi orð sem Snorri vísi til í greininni séu til þess fallin að ýta undir andúð og jafnvel ofbeldi gegn trans fólki í samfélaginu. „Þess vegna eru ummælin kærð. Sú kæra fær svo umfjöllun í kerfinu samkvæmt reglum réttarríkisins. Er það ekki einmitt þannig sem það á að virka?“

Jóhannes Þór segir það valda sér verulegum og alvarlegum vonbrigðum að „sjá þingmenn Miðflokksins og ýmsa vini mína hranna lækum inn á þessa færslu. Það segir mér meira en mörg orð um skilningsleysi þingmanna Miðflokksins á stöðu trans fólks í samfélaginu.“


Úr Mbl. í dag: „Hinn opinberi sannleikur og karlar sem fæða börn“

„Alþingi heldur að karlmenn geti fætt börn. Þessi lög eru í bága við bæði barnasáttmála SÞ og í bága við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar rétt barns til þess að þekkja líffræðilegan uppruna sinn. Manneskjur sem fæða börn kallast konur. Konur sem fæða börn eru alltaf líffræðilegar mæður barna sinna. Alveg óháð hvað vanstillt Alþingi segir.“

Þetta skrifaði maður á Facebook þann 3. apríl 2024. Hann hefur í ljósi ummælanna verið kærður til lögreglu fyrir hatursorðræðu.

Þótt sannarlega sé til fólk sem er ósammála og aðhyllist það sjónarmið að karlmenn geti fætt börn, er þessum frjálsborna manni þó heimilt að hafna fullyrðingunni og lýsa sinni eigin skoðun. Í því felst tæplega refsiverð hatursorðræða heldur virðist tjáningin öllu heldur varin af stjórnarskrá. Það sama gildir um lagalegar útleggingar mannsins og þá skoðun hans að Alþingi sé „vanstillt.“

Þrátt fyrir það sætir maðurinn nú sakamálarannsókn, var boðaður í skýrslutöku til lögreglu og nú er svo komið að kæran er orðin að alþjóðlegu fjölmiðlamáli, sem fjallar um tjáningarfrelsi á Íslandi.

Þar skiptir máli að sá sem leggur fram kæruna eru Samtökin 78, sem njóta verulegs fjárstuðnings ríkisvaldsins í samræmi við ákvörðun fráfarandi ríkisstjórnarflokka. Á sama tíma var maðurinn, þegar kæran var lögð fram í nóvember, sjálfur kominn á gildan framboðslista til Alþingis.

Glöggt er gests augað. Vitaskuld er það fréttnæmt þegar samtök, sem Alþingi fjármagnar, einsetja sér að sækja frambjóðanda til saka sem gagnrýnir hugmyndafræði samtakanna og gagnrýnir þingið um leið. Að sönnu eru einnig tiltekin í kærunni önnur ummæli mannsins sem lýsa heift og fyrirlitningu og eru alls ekki við hæfi í siðgæddri umræðu. En samtök sem njóta eins ríks fjárstuðnings frá ríkisvaldinu verða að gæta sérstaklega að ábyrgð sinni og blanda ekki saman lögmætum viðhorfum og meintri hatursorðræðu. Þar eru stjórnvöld komin ískyggilega nálægt beinum tilraunum til að refsa borgurum fyrir tjáningu. Ef því er leyft að viðgangast getur almenningur ekki dregið aðrar ályktanir en að hin margumtalaða hatursorðræða sé ekkert annað en bara orðræða sem stjórnvöld hata.

Ef félagasamtök, sem reiða sig alfarið á ríkisvaldið og eru þar með í vissum skilningi orðin hluti þess, gerast stórtæk í ritskoðun á samfélagsmiðlum erum við komin á hálar slóðir. Sama hvort mönnum líkar það betur eða verr, hefur fólk rétt til þess að tjá sig um grundvallarþætti í heimsmynd sinni, eins og að karlar geti ekki fætt börn. Þar á fólk ekki að venjast því að hinn eða þessi armur ríkisvaldsins sigi á það lögreglu fyrir skoðun, sem hefur vel að merkja ekki verið umdeild þar til á allra síðustu árum.

Tjáningarfrelsi er meginþáttur í frjálsu samfélagi en nútíminn hefur útvegað nýjar og ísmeygilegar leiðir til að grafa undan því. Í því ljósi þarf greinilega að árétta að sannleikurinn verður ekki til hjá ríkisvaldinu og það er ekki hlutverk þess að framfylgja honum. Það er síðan annar misskilningur að stuðlað verði að félagslegum framförum með því að neyða fólk með lögregluvaldi til að samþykkja hugmyndir sem misbjóða skynsemi þeirra og lífssýn. Slíkt kerfi hefur aldrei gefið góða raun.

Snorri Másson


Ummæli Jóhannesar í heild

Það er verulega umhugsunarvert þegar þingmaður stígur fram til að verja sérstaklega mann sem hefur árum saman barist gegn mannréttindum og tilverurétti jaðarsetts minnihlutahóps í samfélaginu. Það er ekki síður furðulegt að þingmaður skuli telja það skringilegt að samtök sem hafa barist fyrir mannréttindum hinsegin fólks í samfélaginu í tæpa hálfa öld skuli rísa upp til varna fyrir trans fólk, hvort sem það er á samfélagsmiðlum eða annars staðar.

Það er ekki síður furðulegt að sjá þingmann fara með slík fleipur sem þú gerir í þessari grein. Samtökin '78 eru ekki hluti ríkisvaldsins, né hafa þau neins konar valdastöðu í samfélaginu. Þau eru þvert á móti samtök fólks sem hefur aldrei verið í valdastöðu í samfélaginu og hefur þurft að berjast fyrir lagalegum réttindum og samfélagslegu samþykki til jafns við aðra í samfélaginu með kjafti og klóm í tugi ára. Sú staðreynd að þú sem alþingismaður birtir þessa grein sýnir svart á hvítu að sú barátta stendur enn yfir.

Samtökin '78 lögðu fram kæruna sem þú vísar til síðastliðið sumar, löngu áður en viðkomandi var kominn á framboðslista. Hún hefur því ekkert að gera með kosningarnar, enda var það alfarið á ábyrgð lögreglunnar hvenær kæran var tekin fyrir.

Miðflokkurinn leggur áherslu á reglur réttarríkisins. Það er grundvallarþáttur í tjáningarfrelsinu að fólk ber ábyrgð á orðum sínum. Samtökin '78 telja að þessi orð sem þú vísar til í greininni séu til þess fallin að ýta undir andúð og jafnvel ofbeldi gegn trans fólki í samfélaginu. Þess vegna eru ummælin kærð. Sú kæra fær svo umfjöllun í kerfinu samkvæmt reglum réttarríkisins. Er það ekki einmitt þannig sem það á að virka?

Að síðustu þá veldur það mér verulegum og alvarlegum vonbrigðum að sjá þingmenn Miðflokksins og ýmsa vini mína hranna lækum inn á þessa færslu. Það segir mér meira en mörg orð um skilningsleysi þingmanna Miðflokksins á stöðu trans fólks í samfélaginu. Það hryggir mig meira en orð fá lýst ef þingmenn Miðflokksins ætla að taka sér opinberlega stöðu við hlið Elds Smára og skoðanabræðra hans, eins og þessi grein gefur því miður til kynna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×