Á vef Veðurstofunnar kemur fram að frost verði á bilinu núll til níu stig, kaldast norðaustantil.
„Keimlíkt veður á morgun, en þó ætti heldur að draga úr éljunum.
Á miðvikudag er svo útlit fyrir meinlitla norðanátt með éljum fyrir norðan, en þá styttir upp sunnan heiða. Frost um allt land,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og stöku él, en bjart að mestu norðaustan- og austanlands. Frost 0 til 9 stig, kaldast norðaustantil.
Á miðvikudag: Norðvestan og norðan 5-13 og dálítil él, en þurrt á Suður- og Suðausturlandi. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.
Á fimmtudag: Breytileg átt 5-13 og dálítil él norðaustantil, annars þurrt að kalla. Kalt í veðri. Vaxandi suðaustanátt eftir hádegi með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands, en rigning við ströndina um kvöldið. Hlýnar í veðri.
Á föstudag: Vestlæg átt 8-15 og kólnar með éljum, en styttir upp austanlands. Úrkomuminna síðdegis og víða vægt frost, en snýst í vaxandi suðaustanátt um kvöldið.
Á laugardag (vetrarsólstöður): Breytileg átt. Rigning eða slydda og hiti 0 til 6 stig, en snjókoma og vægt frost um landið norðanvert.
Á sunnudag: Útlit fyrir kalda norðanátt með snjókomu og síðar éljum, en úrkomulítið sunnan heiða.