Alexandra kom inn á sem varamaður hjá Fiorentina sem mætti toppliði Juventus á heimavelli, og varð að sætta sig við 2-0 tap.
Sofia Cantore skoraði bæði mörk Juventus í upphafi seinni hálfleiks, skömmu áður en Alexandra kom inn á völlinn á 57. mínútu.
Sigurinn veitir Juventus gott forskot á toppi deildarinnar um jólin en liðið er með 35 stig, sjö stigum á undan Inter og Roma, og níu stigum á undan Fiorentina sem er í 4. sæti. Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt marki Inter hreinu í 3-0 sigri gegn Sassuolo fyrr í dag eins og fyrr var greint frá.
Dagný Brynjarsdóttir fékk lítið að spila með West Ham í lokaleiknum fyrir jólafrí í dag, þegar liðið tapaði 3-1 í Birmingham gegn Aston Villa.
Dagný kom inn á völlinn í uppbótartíma, þegar öll mörk leiksins höfðu verið skoruð.
Tapið var slæmt fyrir West Ham sem nú er komið niður í 10. sæti, með átta stig, en Villa, Liverpool og Everton eru einu stigi ofar. Crystal Palace er á botninum með fimm stig og Leicester með sex.