Erlent

Skrifaði um að drepa „baunateljara“

Samúel Karl Ólason skrifar
Luigi Mangione, fyrir utan dómshús í Pennsylvaníu í gær.
Luigi Mangione, fyrir utan dómshús í Pennsylvaníu í gær. AP/Benjamin B. Braun

Lögregluþjónar sem handtóku Luigi Mangione, sem grunaður er um að hafa myrt forstjóra eins stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, fundu í fórum hans stílabók. Þar hafði hann meðal annars skrifað um morðið, réttlætingu á því og hvernig hægt væri að framkvæma það.

Mangione er sagður hafa skrifað um það hvernig hann gæti farið á ráðstefnu „baunateljara“ og myrt þar forstjóra. Hann er grunaður um að hafa skotið Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthCare á árlegri fjárfestaráðstefnu í New York í síðustu viku.

„Hvað gerir þú? Þú kálar forstjóranum á hinni árlegu ráðstefnu sníkjudýra baunateljara. Það er hnitmiðað, nákvæmt og setur ekki saklausa í hættu.“

Þetta er meðal þess sem hann skrifaði í bókin, samkvæmt heimildarmönnum New York Times.

Mangione, sem er 26 ára gamall, hefur verið ákærður í Pennsylvaníu, þar sem hann var handtekinn, fyrir skjalafals og brot á vopnalögum, svo eitthvað sé nefnt, en hann var handtekinn með þrívíddarprentaða byssu, hljóðdeyfi og fölsuð skilríki sem hann reyndi að framvísa.

Þá var hann einnig með handskrifaða yfirlýsingu þar sem hann er sagður hafa skrifað hvað honum gekk til þegar hann myrti forstjórann. Þar á hann að hafa skrifað að „þessi sníkjudýr“ ættu þetta skilið.

Hann hefur einnig verið ákærður fyrir morðið í New York. Til stendur að framselja hann til New York en hann er að reyna að stöðva það.


Tengdar fréttir

Öskraði þegar hann var leiddur í dómsal

Luigi Mangione, sem er grunaður um að skjóta mann til bana á götum New York-borgar í síðustu viku, öskraði að fjölmiðlafólki þegar hann var leiddur fyrir dómara í Pennsylvaníuríki Bandaríkjanna í dag.

„Síðasta manneskjan sem mann myndi nokkurn tímann gruna“

Luigi Mangione, sem er grunaður um að skjóta mann til bana á götum New York-borgar í síðustu viku, leit á morðið sem táknræna athöfn til að ógna og ögra meintri spillingu og valdatafli. Þetta kemur fram í lögregluskýrslu sem New York Times hefur undir höndum.

Ákærður fyrir morð í New York

Hinn tuttugu og sex ára gamli Luigi Mangione, sem var handtekinn í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum í gær hefur nú verið formlega ákærður fyrir morð í New York á dögunum. Hann er grunaður um að hafa myrt Brian Thompson, forstjóra eins stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, á götu úti í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×