Tónlist

Hélt tryllt tónlistarteiti og eignaðist svo tví­bura

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Egill Breki og Sævar Breki mynda dúóið NUSSUN.
Egill Breki og Sævar Breki mynda dúóið NUSSUN. Aron Gestsson

Það hefur margt á daga Sævars Breka drifið en hann myndar tvíeykið NUSSUN ásamt Agli Breka. Þeir stóðu fyrir stórum útgáfutónleikum í síðustu viku þar sem þeir gáfu út stuttmynd og tónlistarmyndband og á föstudag eignuðust Sævar Breki og unnusta hans Guðrún Lóa svo tvíbura. 

Blaðamaður náði tali af Sævari þar sem hann var staddur á fæðingardeildinni og eru nýbökuðu foreldrarnir í skýjunum með frumburðina tvo.

Fegurð skemmtanalífsins

Sævar og Egill Breki Scheving stofnuðu sveitina NUSSUN í fyrra og gáfu út eitt lag áður en þeir ákváðu að vinna með góðvini þeirra Andra Fannari sem er betur þekktur sem HÚGÓ.

„Við heyrðum í pródúsernum Þormóði Eiríkssyni með það markmið að semja plötu sem herjar á fegurðina við skemmtanalífið, gleði og ást. Úr því varð platan Dansa fram á nótt, pródúseruð af Þormóði, sem við syngjum allir inn á. 

Platan datt í milljón spilanir í nóvember og fannst okkur gráupplagt að fagna því með stuttmynd og gefa út tónlistarmyndband sem hefur verið í vinnslu í hálft ár,“ segir Sævar.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið við lagið Hvað með þig, sem er jafn framt mest spilaða lag strákanna:

Klippa: NUSSUN ft. HÚGÓ - Hvað með þig?

„Stuttmyndin er tekin upp og klippt af Rúnari Inga Guðmundssyni sem hefur fylgt okkur á flest af okkar stærstu giggum hérlendis og var þetta eins konar bak við tjöldin mynd og áður óséð efni frá okkur, sem ratar venjulega ekki á miðla.

Við sýndum myndina fyrst á Ísafirði fyrir tveimur vikum síðan við góðar undirtektir, þar sem Húgó og Þormóður koma báðir frá Ísafirði, og endurtókum við svo leikinn á Bullseye fyrir helgi. Um 200 manns mættu og stemningin var yndisleg.“

Það var mikil stemning í frumsýningarteitinu.Aron Gestsson

Pressan stundum krefjandi

Hann segir að myndbandið hafi mest megnis verið tekið upp í vor og það hafi tekið sinn tíma að fullkomna það.

„Það er nú fyrsta íslenska tónlistamyndbandið sem frumsýnt er á Spotify.“

Sævar og Egill þrífast vel í tónlistarbransanum.

„Það skemmtilegasta við tónlistina er að heyra og sjá hvað öðrum þykir hún skemmtileg og hvað hún getur haft mikil áhrif á daglegt líf fólks.“

Sömuleiðis eru krefjandi hliðar bransans óumflýjanlegar.

„Þessu fylgir mikil pressa sem getur verið krefjandi en maður þarf bara að líta inn á við, muna af hverju maður er að þessu og sama hvað bjátar á þá er maður alltaf með gott fólk í hverju horni.“

Andri Fannar eða HÚGÓ tróð upp með strákunum.Aron Gestsson

Þormóður gjörbreytti öllu

Andri Fannar eða HÚGÓ er einn af bestu vinum Sævars og Egils til margra ára.

„Því var það svo sjálfsagt að fara starfa saman, sem var mikið stökk fyrir okkur Egil enda nýir í tónlistarsenunni. Með þessu samstarfi kom Þormóður Eiríksson inn í líf okkar sem gjörbreytti öllu og getum við þrír vart komið okkar þakklæti í hans garð í orð.“

Þormóður, fyrir miðju, er í miklu uppáhaldi hjá strákunum.Aron Gestsson

Strákarnir sýndu sömuleiðis stuttmynd á risa skjávarpa í teitinu sem þeir lýsa sem hrárri, einlægri og skemmtilegri.

„Það er óljóst hvort hún muni nokkurn tímann líta dagsins ljós. Innblásturinn fyrir tónlistarmyndbandið er svo hugarvinna okkar allra sem komum að því að semja lagið, takturinn í því, leikur að orðum og fraseringum auk innblásturs frá stærri tónlistarmönnum.“

Hér má hlusta á NUSSUN á streymisveitunni Spotify. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.