Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir, Elíza Geirsdóttir Newman, Helga Ragnarsdóttir, Katla Vigdís Vernharðsdóttir, Lára Rúnarsdóttir, Lilja Sól Helgadóttir, Sóley Stefánsdóttir og Steinunn Camilla Stones skrifa

Í vikunni birti mbl.is frétt um streymistölur íslendinga á veitunni Spotify fyrir árið 2024. Í fréttaflutningnum þótti okkur blaðamann skorta heildræna sýn á kynjamál í tónlistarbransanum og stilla upp ansi dapurlegri mynd.

Rannsóknir sýna að konur njóta tónlistar eftir konur og karla en karlar hlusta mest á aðra karla. Það er rótgróið í ríkjandi kynjakerfi að það sem þykir „kvenlegt“ eða „stelpulegt“ sé síðra í menningu drengja og karla. Þar liggur potturinn grafinn.

Hinn stjórnsami Algor Rytmi, sem ræður neyslu okkar í dag og tekur mið af því sem við hlustum á eða gætum haft áhuga á út frá kyni og aldri, hlýtur að hafa áttað sig á því sem rannsóknir sýna. Hann matar konur af tónlist eftir bæði konur og karla en matar karla mest af tónlist eftir karla (í meira mæli – ekki í öllum mæli).

Þegar mbl.is slengir fram þessari staðreynd án þess að velta því upp hvað veldur og lætur þar með lesandann fylla inn í eyðurnar, þá getur kona túlkað það sem svo að fólk hafi ekki áhuga á að hlusta á íslenskar tónlistarkonur, konur þurfi bara að gera betur og að ekki einu sinni Laufey – sem á að þykja svo góð – kemst á lista.

Miðað við tölfræði frá streymisveitum um hlustendavenjur eiga konur miklu erfiðara með að ná í gegn þar sem þær ná eingöngu til eyrna tæplega helmings mannkyns. Á meðan eiga starfsbræður þeirra greiðari leið að eyrum allra, óháð kyni.

Og hvað meinar höfundur með setningunni: „Það er þó óljóst hvort Birn­ir eða Bríet eigi í raun sætið“

Tónlistarkonur eru ekki „bara“ söngkonur þó að söngkonur séu snilld.

Höfundur endar greinina á: Fleiri ís­lensk­ar söng­kon­ur er ekki að finna á list­an­um.

En nákvæmlega þetta hefur verið eitt af baráttumálum kvenna í tónlist í fjölda ára. Við erum tónlistarkonur og innan okkar raða eru lagahöfundar, textahöfundar, upptökustjórar, söngkonur, rapparar, hljóðfæraleikarar, dj-ar osfrv.

Konurnar sem að höfundur tilgreinir í pistlinum, Bríet og GDRN eru báðar laga- og textahöfundar og titlast því báðar sem tónlistarkonur.

Nýverið kynnti KÍTÓN, félag kvenna, kynsegin og transfólks í tónlist, frumraun sína í lagalistagerð með frábærum Spotify-lista af 30 íslenskum jólalögum eftir um 40 frábærar íslenskar tónlistarkonur!

Tilgangur verkefnisins er að lyfta kvenhöfundum þar sem eitt af meginmarkmiðum KÍTÓN er að leiðrétta skekkju á höfundarréttartekjum.

Við mælum með að rúlla listanum á aðventunni og njóta þess hvað við eigum frábæra kven laga- og textasmiði. Fyrir þá sem vilja velja sér lagalista í stað þess að láta mata sig.

https://open.spotify.com/playlist/2zHX5UI29kHonUg3QLCfyV?si=531173156ae24054

Virðingarfyllst,

Ásta Björg Björgvinsdóttir, Elíza Geirsdóttir Newman, Helga Ragnarsdóttir, Katla Vigdís Vernharðsdóttir, Lára Rúnarsdóttir, Lilja Sól Helgadóttir, Sóley Stefánsdóttir og Steinunn Camilla Stones.

Höfundar skipa stjórn KÍTÓN - félag kvenna, kynsegin og transfólks í tónlist.




Skoðun

Sjá meira


×