Ísland tapaði naumlega, 27-25, gegn afar sterku hollensku liði. Stelpurnar leiddu leikinn lengi vel og hefðu hæglega getað unnið hann ef ekki væri fyrir örfá mistök hér og þar.
„Við erum alltaf að horfa í frammistöður og frammistaðan heilt yfir í gær var góð. Svo tilfinningn heilt yfir er góð. Það eru alltaf hlutir sem maður horfir í og hefðu getað farið betur en heilt yfir er ég ánægður með þetta,“ segir Arnar um leik gærdagsins þegar fréttamenn heimsóttu liðshótel íslenska liðsins í dag.
Hér í Innsbruck gefst ekki mikill tími til að spá í kosningarnar sem tröllríða öllu heimafyrir.
„Nei. Ég held að við flest hérna höfum tekið ákvörðun um það þegar við flugum út að þá væri þessum kosningum lokið. Við kusum öll auðvitað. Svo vaknar maður bara á morgun og sér hvernig þetta fer allt saman,“ segir Arnar. Það er þá að líkindum ekki í boði að vaka lengi fram eftir yfir kosningasjónvarpinu?
„Ég er svo sem mikill áhugamaður um pólitík og fylgist ávallt með þessu langt fram eftir nóttu. En ég ætla að gefa þessum kosningum frí. Það er bara þannig,“ segir Arnar.
Fleira kemur fram í viðtalinu við Arnar sem má sjá í heild sinni í spilaranum.
Ísland mætir Úkraínu klukkan 19:30 annað kvöld. Leiknum verður lýst beint á Vísi og íslenska liðinu fylgt vel eftir fram að leik.