Sport

Sá fyrsti sem er rekinn í 104 ára sögu

Sindri Sverrisson skrifar
Matt Eberflus er búinn að missa starf sitt hjá Chicago Bears.
Matt Eberflus er búinn að missa starf sitt hjá Chicago Bears. Getty/Kevin Sabitus

Bandaríska NFL-liðið Chicago Bears hefur tekið þá sögulegu ákvörðun að reka þjálfarann Matt Eberflus, eftir sex töp í röð.

Chicago Bears hefur átt lið í NFL-deildinni frá árinu 1920 en aldrei fyrr hefur það gerst að félagið reki þjálfara á meðan að tímabil er enn í gangi.

Nú hefur það hins vegar breyst og hinn 54 ára gamli Eberflus verið rekinn.

Bears eru neðstir í NFC-norðurriðlinum með fjóra sigra og átta töp, en dropinn sem fyllti mælinn varðandi Eberflus var tap gegn Detroit Lions í fyrrakvöld.

Eberflus taldi sig reyndar hafa fullan stuðning forseta félagsins, Kevin Warren, og framkvæmdastjórans Ryan Poles, þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir leikinn. Þeir vildu hins vegar breyta til.

„Ég þakka Matt fyrir hans mikla vinnuframlag, fagmennsku og ástríðu fyrir okkar félagi,“ sagði Poles.

Eberflus stýrði Bears í hátt í þrjár leiktíðir og var niðurstaðan 14 sigrar og 32 töp. Hann var gagnrýndur fyrir tímastjórnun sína í lok leiksins gegn Lions en sagðist við blaðamenn telja sig hafa gert hlutina með réttum hætti.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×