Innlent

Ó­venju­mikil að­sókn vegna veðurs

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Horft yfir Egilsstaði. Mynd úr safni.
Horft yfir Egilsstaði. Mynd úr safni. vísir/vilhelm

„Fólk tekur það yfirleitt fram þegar það kemur til okkar að það sé eins gott að fara drífa sig, því það sem vofir yfir er það sem að Íslendingar þekkja því miður betur en aðrar þjóðir, vont veður.“

Þetta segir Svavar Pálsson, sýslumaður á Austurlandi, í samtali við Vísi en slæm veðurspá á svæðinu fyrir kjördag á laugardag hefur valdið því að fleiri kjósa utan kjörfunar en áður. Veðurviðvaranir hafa verið gefnar út fyrir Austfirði. Samtals eru utankjörfundaratkvæði á Austurlandi nú yfir 1.100 talsins sem er um fimmtán prósent kjörsókn. 

„Þetta er búinn að vera mjög stór dagur, kjörsókn er búin að vera mjög góð. Þessi fimmtudagur hefur verið sérstaklega stór og mjög mikil kjörsókn á öllum kjörstöðum.“

Spurður hvort að um metaðsókn utan kjörfundar sé að ræða segir Svavar: „Ég hugsa að það sé nærri því, við vitum það ekki fyrr en morgundagurinn er búinn.“

Jafnframt hefur verið gripið til ýmissa ráðstafanna til að auðvelda fyrir þeim sem vilja kjósa utan kjörfundar. Boðið hefur verið upp á auka opnun á Djúpavogi og Borgarfirði eystri. 

„Það eru auka opnanir og skipun kjörstjóra á afksekktari stöðum þar sem hætta er á að fólk lokist inni. Svo höfum við þurft að grípa til þess að senda kjörgögn á milli staða. Notkun á kjörgögnum hefur verið umfram fyrstu áætlanir svo við höfum þurft að bregðast við þessari auknu kjörsókn með ýmsum hætti.“

Svavar tekur það fram að það sé nokkuð óvanalegt að þurfa grípa til ráðstafanna vegna veðurs og bendir á að vanalega sé kosið að vori eða snemma að hausti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×