Á laugardaginn var tapaði Leicester 2-1 gegn Chelsea sem leiddi til þess að Steve Cooper var látinn taka poka sinn. Hann hafði aðeins tekið við liðinu síðasta sumar þegar Enzo Maresca tók við Chelsea.
Það sem verra er, leikmenn liðsins sáust á djamminu í Kaupmannahöfn sama kvöld og þeir töpuðu gegn Chelsea. Þar sáust leikmenn liðsins halda á skilti sem stóð á „Enzo við söknum þín.“ Eflaust hafði það ekki áhrif á stjórn félagsins að losa Cooper en tímasetningin kómísk engu að síður.
Last night the Leicester players were partying with a sign that said “Enzo I miss you”😳
— The 44 ⚽️ (@The_Forty_Four) November 24, 2024
Today, their current manager Steve Cooper has been sacked😬pic.twitter.com/NbjqMWBHy9
Markvörðurinn Mads Hermansen og vinstri bakvörðurinn Victor Kristiansen voru báðir í byrjunarliði Refanna en þeir koma frá Danmörku. Þeir voru því svo sannarlega á heimavelli þegar liðið skellti sér til Köben en þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem leikmenn Leicester gera sér glaðan dag í Kaupmannahöfn.
Skömmu fyrir jól árið 2015 skelltu leikmenn liðsins sér nefnilega til Kaupmannahafnar til að sletta úr klaufunum. Var þetta gert þegar liðið átti nokkurra daga frí áður en jólatörnin á Englandi fór á fullt.
Segja má að þetta hafi skilað jákvæðum árangri þá en vorið 2016 stóð Leicester uppi sem Englandsmeistari, eitthvað ótrúlegasta afrek í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Það eru litlar sem engar líkur á því að liðið endurtaki leikinn í vor en sem stendur væri félagið sátt með að halda stöðu sinni í deildinni.