Enski boltinn

Salah von­svikinn og segist lík­lega á förum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mo Salah hefur verið hjá Liverpool síðan 2017. 
Mo Salah hefur verið hjá Liverpool síðan 2017.  John Powell/Getty Images

Mohamed Salah, stórstjarna enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segist vonsvikinn vegna þess að félagið hafi ekki boðið honum framlengdan samning. Jafnframt segist hann líklegri til að yfirgefa félagið sumar heldur en að vera áfram í Bítlaborginni.

Hinn 32 ára gamli Egypti er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni með 12 mörk í öllum keppnum. Skoraði hann meðal annars tvö mörk í 3-2 sigri liðsins á Southampton um helgina. Sá sigur gaf lærisveinum Arne Slot mjög svo góða forystu á toppi deildarinnar.

Eftir sigurinn sagði framherjinn við fjölmiðla að „það væri næstum kominn desember og ég hef ekki enn fengið samningstilboð frá félaginu. Ég er líklega meira úti en ég er inni.“ Hann játti því svo að hann væri vonsvikinn vegna þessa.

„Ég er ekki á leiðinni að fara leggja skóna á hilluna í bráð svo ég einbeiti mér bara að því að spila. Ég er að reyna vinna ensku úrvalsdeildina og vonandi Meistaradeild Evrópu líka. Ég er vonsvikinn en við sjáum til.“

Samkvæmt frétt BBC, breska ríkisútvarpsins, um málið hefur Liverpool ekki enn tjáð sig um ummæli leikmannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×