Fótbolti

Cecilía búin að loka og læsa marki Inter

Sindri Sverrisson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er að gera frábæra hluti hjá Inter.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er að gera frábæra hluti hjá Inter. Getty/Pier Marco Tacca

Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt marki Inter hreinu í dag, þriðja leikinn í röð, þegar liðið vann 1-0 sigur gegn Napoli í ítölsku A-deildinni í fótbolta.

Cecilía hefur átt frábæra leiktíð hingað til eftir komuna til Inter í sumar, og fengið á sig langfæst mörk allra í ítölsku deildinni.

Hún hefur alls haldið marki Inter hreinu í fimm af níu deildarleikjum sem hún hefur spilað, oftast allra markvarða í deildinni, og aðeins fengið á sig fimm mörk í hinum leikjunum.

Alls hefur Inter fengið á sig sex mörk í deildinni hingað til, þremur færri en næsta lið í þeim efnum sem er topplið Juventus sem á eftir leik við Como á morgun.

Inter komst með sigrinum í dag upp fyrir Fiorentina, lið Alexöndru Jóhannsdóttur, í 2. sæti deildarinnar með 24 stig. Juventus er með 26 stig og Fiorentina 22 stig. Napoli er í 8. sæti með sex stig.

Í harðri samkeppni í landsliðinu

Cecilía, sem er 21 árs, er í afar harðri samkeppni um markvarðarstöðuna í íslenska landsliðinu nú þegar sífellt styttist í Evrópumótið í Sviss næsta sumar.

Hún lék fyrri vináttulandsleikinn gegn Bandaríkjunum ytra á dögunum, og Telma Ívarsdóttir þann seinni. Fanney Inga Birkisdóttir, sem var aðalmarkvörður Íslands í undankeppni EM í sumar, missti af leikjunum við Bandaríkin vegna höfuðmeiðsla.

Þær þrjár eru í hópnum sem mætir Kanada 29. nóvember og Danmörku 2. desember í vináttulandsleikjum á Pinatar Arena á Spáni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×