„Þarna erum við að hefja í fyrsta sinn þessa heilsárs neytendamarkaðssetningu líkt og samkeppnisaðilar okkar hafa verið að gera, lönd á borð við Noreg, Nýja Sjáland og Finnland,“ segir Lilja Dögg í samtali við fréttastofu. Hún segir að þetta sé í takti við Ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun um hana sem samþykkt var í júní.
Lilja bætir við að það sé mjög brýnt að koma því til skila að þrátt fyrir að nú gjósi reglulega á Reykjanesinu hafi alþjóðaflugvöllurinn aldrei lokað. „Þetta er tíunda gosið núna á mjög stuttum tíma þannig að það er mjög brýnt að það séu rétt skilaboð sem fara þarna út.“ Hún bætir við að þessu til viðbótar hafi Norðmenn til dæmis sett aukinn kraft í að markaðssetja norðurljósaferðir þar í landi.
„Og þessvegna er afar mikilvægt að við förum í þessa heilsársmarkaðssetningu til þess að verja þessar gjaldeyristekjur sem ferðaþjónustan aflar fyrir þjóðarbúið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.