Fótbolti

Ís­land mætir Kósovó í afar sér­stöku umspili

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Óskarsson og félagar í íslenska landsliðinu eiga fyrir höndum umspil í lok mars, um að halda sér í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Orri Óskarsson og félagar í íslenska landsliðinu eiga fyrir höndum umspil í lok mars, um að halda sér í B-deild Þjóðadeildarinnar. Getty/Stefan Ivanovic

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Kósovó í umspilinu um að halda sér í B-deild Þjóðadeildarinnar á næstu leiktíð.

Segja má að umspilið verði afar sérstakt því ljóst er að Ísland getur ekki spilað sinn heimaleik á Íslandi, vegna vallarmála hér á landi, og Kósovó er í áhorfendabanni í næsta heimaleik sínum.

Liðin mætast í tveimur leikjum og er áætlað að þeir fari fram fimmtudaginn 20. mars og sunnudaginn 23. mars. Dregið var í beinni útsendingu í dag.

Ísland á heimaleik í seinni leiknum en samkvæmt svari KSÍ er útilokað að sá leikur fari fram á Íslandi. Hann mun því fara fram erlendis en ekki er enn ljóst nákvæmlega hvar.

Ef Ísland vinnur umspilið mun liðið áfram leika í B-deild í Þjóðadeildinni haustið 2026, en tapi liðið mun það leika í C-deildinni.

Heimir og hans menn mæta Búlgaríu

Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans í írska landsliðinu eru í svipuðum sporum og Ísland, eftir að hafa endað í 3. sæti síns riðils í B-deildinni. Þeir drógust gegn Búlgaríu.

B/C-umspilið í Þjóðadeild UEFA

  • Kósovó - Ísland
  • Búlgaría - Írland
  • Armenía - Georgía
  • Slóvakía - Slóvenía

Fjórir mögulegir mótherjar Íslands voru í skálinni í dag, liðin sem enduðu í 2. sæti síns riðils í C-deildinni nú, en það voru Slóvakía, Kósovó, Búlgaría og Armenía.

Kósovóar deila við UEFA

Eins og fyrr segir hafa Kósovóar verið dæmdir í eins leiks heimaleikjabann af UEFA, eftir að leikmenn liðsins gengu af velli undir lok leiks gegn Rúmeníu í Þjóðadeildinni í haust.

Kósovóar segja leikmenn sína hafa orðið fyrir barðinu á rasískum hrópum stuðningsmanna Rúmeníu, og UEFA staðfestir það að ákveðnu leyti í dómi sínum þar sem rúmenska knattspyrnusambandið fær sekt vegna áhorfenda. Knattspyrnusamband Kósovó ætlar því að áfrýja úrskurði UEFA til CAS, alþjóða íþróttadómstólsins.

Rúmeníu var dæmdur 3-0 sigur en hvort sem því yrði breytt í tap Rúmeníu eða jafntefli þá myndi Kósovó alltaf hafa endað í 2. sæti riðils þjóðanna í C-deildinni, og því fara í umspilið sem nú er ljóst að verður við Ísland.

Sigurinn sem tryggði Íslandi sæti á HM

Ísland og Kósovó hafa tvisvar áður mæst en það var í undankeppni HM 2018. Ísland rétt marði þá 2-1 sigur á útivelli, en leikið var í Albaníu, og skoruðu Björn Bergmann Sigurðarson og Gylfi Þór Sigurðsson mörk Íslands.

Í seinni leiknum vann Ísland 2-0 sigur á Laugardalsvelli og tryggði sér um leið farseðil á sitt fyrsta heimsmeistaramót.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×