Erlent

John Prescott fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Tony Blair og John Prescott árið 2005.
Tony Blair og John Prescott árið 2005. EPA

Breski stjórnmálamaðurinn John Prescott er látinn, 86 ára að aldri. Hann gegndi embætti aðstoðarforsætisráðherra Bretlands um tíu ára skeið, í stjórnartíð Tony Blair.

Breskir fjölmiðlar greina frá andlátinu í morgun og vísa í fjölskyldu Prescott. Hann er sagður hafa andast á hjúkrunarheimili þar sem hann dvaldi, en hann hafði um árabil glímt við Alzheimer.

Prescott var næstráðandi í breska Verkamannaflokknum frá 1997 til 2007 og fram til ársins 2001 var hann einnig ráðherra samgöngu-, umhverfis- og byggðamála. Hann sat á þingi í um fjörutíu ár og hafði þar áður verið virkur innan verkalýðshreyfingarinnar.

Prescott var um árabil einn helsti leiðtogi vinstrivængs flokksins og lýsir Reuters honum sem einum af „litríkustu“ ráðherrunum í ríkisstjórn Blair. Hann hafi þekktur fyrir að vera skýrmæltur stjórnmálamaður sem hafi lagt mikið á sig til að byggja brýr á milli ólíkra fylkinga innan Verkamannaflokksins.

Tonu Blar, fyrrverandi forsætisráðherra, segist miður sín að frétta af andláti Prescott og Keir Starmer, núverandi forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, segir Prescott hafa verið „sannkallaðan risa innan verkamannahreyfingar landsins“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×