Körfubolti

Tekst á við lífið á nýjum stað: „Svolítið óstabílt um­hverfi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elvar Már segir gott að koma heim en viðbrigðin frá hitanum í Grikklandi eru umtalsverð.
Elvar Már segir gott að koma heim en viðbrigðin frá hitanum í Grikklandi eru umtalsverð. Vísir/Sigurjón

„Þetta reynir á hausinn“ segir Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, sem hefur glímt við töluvert rót á nýjum stað í Grikklandi. Hann segir fínt að komast aðeins heim í kuldann á klakanum.

„Það er mjög fínt að koma heim, að æfa aðeins og breyta aðeins um umhverfi. Að hitta fjölskylduna og svona. En það er mjög kalt,“ segir Elvar Már sem er sannarlega vanur annars konar loftslagi þar sem hann spilar með liði Maroussi í Aþenu. Þar hefur aftur á móti gengið á ýmsu.

„Ég er náttúrulega í geggjaðri borg í Aþenu og lífið er mjög gott þarna. Körfuboltinn er á háu stigi en Grikkinn er stundum svolítið öðruvísi. Það hefur verið svolítið mikil rótering bæði í liðinu og þjálfurum sem hefur verið í vetur. Þetta er svolítið óstabílt umhverfi,“ segir Elvar Már og bætir við:

„Við skiptum um þjálfara eftir þrjá leiki og svo hafa nýir menn komið inn og aðrir farið. Það er ekki mikill stöðugleiki í þessu. Við erum að reyna að finna út úr hlutunum.“

En er ekki snúið fyrir leikstjórnanda að venjast sífellt nýju kerfi og nýjum liðsfélögum?

„Þetta getur svolítið reynt á hausinn þegar þú ert aldrei með sama hópinn og sífellt nýjar áherslur. Það getur klárlega verið snúið að glíma við það. En ég held að ég sé kominn með ágæta reynslu af því að vera úti um allt. Þetta er bara partur af þessu,“ segir Elvar Már.

Elvar spilaði fyrir PAOK í Þessaloniku í Grikklandi í fyrra en flutti til Aþenu í sumar. Þar er aðeins meira um að vera.

„Það er aðeins meiri traffík og meira kraðak þarna. Í Þessalóniku bjó ég bara á ströndinni og það var aðeins rólegra líf. En þetta er mjög fínt líka. Ég kvarta ekki,“ segir Elvar Már.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í heild sinni að neðan.

Klippa: Elvar Már tekst á við nýja áskorun í Aþenu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×