Fótbolti

Sjáðu hinn verð­mæta Orra skora með skalla í Tékk­landi

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Óskarsson skorar hér með skalla gegn Viktoria Plzen í Tékklandi í gærkvöld.
Orri Óskarsson skorar hér með skalla gegn Viktoria Plzen í Tékklandi í gærkvöld. EPA-EFE/MARTIN DIVISEK

Orri Óskarsson skoraði sitt fyrsta Evrópumark fyrir spænska liðið Real Sociedad í gærkvöldi, sem jafnframt reyndist eina mark liðsins í 2-1 tapi gegn Viktoria Plzen í Tékklandi.

Þetta var þriðji leikur Orra í Evrópudeildinni en hann hafði áður komið inn á sem varamaður gegn Nice og verið í byrjunarliði gegn Anderlecht.

Mark Orra í gær kom á 35. mínútu, þegar hann jafnaði metin með skalla eftir fyrirgjöf frá Evrópumeistaranum Mikel Oyarzabal. Markið má sjá hér að neðan.

Orri hefur áður skorað fimm mörk í undankeppni Meistaradeildar Evrópu, þegar hann var leikmaður FC Kaupmannahafnar, en markið í gær var hans fyrsta í aðalhluta Evrópukeppni.

Orri hefur nú þegar einnig skorað tvö mörk í spænsku 1. deildinni, þar sem hann hefur leikið þrjá leiki í byrjunarliði og fimm sinnum komið inn á sem varamaður.

Eins og Vísir fjallaði um í morgun þykir Orri einn af verðmætustu leikmönnum heims, af þeim sem eru 21 árs og yngri. Real Sociedad keypti hann í sumar fyrir metfé frá FC Kaupmannahöfn, eða á tuttugu milljónir evra, en hann er nú metinn á 36 milljónir evra.

Orri skoraði stórglæsilegt mark fyrir Ísland í síðasta mánuði, þegar hann bruanði fram hálfan völlinn og þrumaði í netið gegn Tyrklandi, og hann skoraði með hörkuskalla gegn Svartfjallalandi í september.

Þessi tvítugi framherji er að sjálfsögðu í íslenska landsliðshópnum sem lýkur riðlakeppni Þjóðadeildarinnar í þessum mánuði, með útileikjum við Svartfjallaland og Wales. 

Fyrri leikurinn er við Svartfellinga laugardaginn 16. nóvember og sá seinni við Walesverja þriðjudagskvöldið 19. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×