Dani Olmo var afar áberandi í fyrsta leik sínum í byrjunarliði Barcelona síðan hann meiddist í læri um miðjan september. Börsungar unnu grannaslaginn við Espanyol í dag, 3-1, í spænsku 1. deildinni í fótbolta.
Olmo hefur komið inn á sem varamaður í síðustu leikjum en var mættur aftur í byrjunarliðið í dag og skoraði strax á 12. mínútu, eftir sendingu frá Lamine Yamal.
Raphinha bætti við öðru marki og Olmo kom Barcelona svo í 3-0 með sínu seinna marki í leiknum, þegar aðeins hálftími var liðinn af leiknum.
Javi Puado minnkaði muninn fyrir Espanyol í seinni hálfleik.
Barcelona hefur þar með unnið ellefu af tólf deildarleikjum sínum til þessa og er með 33 stig á toppi deildarinnar, níu stigum á undan Real Madrid. Espanyol er hins vegar með tíu stig í 17. sæti, alveg við fallsætin.