Tyson snýr aftur í hringinn 15. nóvember þegar hann mætir samfélagsmiðlastjörnunni Jake Paul. Alls munar 31 ári á þeim. Tyson er 58 ára en Paul 27 ára.
Bardaginn átti upphaflega að fara fram í júlí en var frestað vegna veikinda Tysons. Í aðdragandanum sagði Tyson að hann borðaði hrátt kjöt vegna þess að Paul myndi vera hrátt kjöt þegar hann hefði lokið sér af með hann.
Tyson hefur nú dregið í land og segir af og frá að hann borði hrátt kjöt.
„Ég myndi aldrei borða neitt hrátt kjöt. Konan mín gerir það en ég borða ekki hrátt kjöt. Japanska dótið, sushi,“ sagði Tyson.
Bardagi þeirra Pauls fer fram á AT&T leikvanginum, heimavelli Dallas Cowboys í NFL-deildinni, og verður sýndur beint á Netflix.