Nóttina fyrir úrslitaleikinn komst óprúttinn aðili inn á Víkingssvæði, vopnaður málningarrúllu og grænni málningu í anda Breiðabliks. Samkvæmt frétt Fótbolta.net málaði hann um 250-300 bretti í grænum lit, af um 2.000 brettum sem komið var upp sérstaklega vegna leiksins til að sem flestir áhorfendur gætu orðið vitni að sögulegri stund.
Í frétt Fótbolta.net var því jafnframt haldið fram að Víkingar ætluðu að kæra Breiðablik vegna málsins, og að tjónið næmi einni og hálfri milljón.
Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, segir í samtali við Vísi í dag að enn standi til að leita til KSÍ vegna málsins. Tjónið vegna brettanna sé minna en óttast var en að málning hafi einnig farið á stóra auglýsingaseglborða sem hver um sig kosti 70-80 þúsund krónur í framleiðslu.
„Þetta var tilkynnt til lögreglu og mér finnst mikilvægt að menn komist ekki upp með þetta. Það verða að vera einhver viðurlög, annars endar þetta bara í einhverri vitleysu,“ segir Haraldur við Vísi.
Blysi kastað inn á völlinn
Það á eftir að skýrast hvað lögregla aðhefst vegna málsins en samkvæmt upplýsingum Vísis er aftur á móti afar ólíklegt að aga- og úrskurðarnefnd KSÍ refsi Breiðabliki vegna skemmdarverkanna. Þau voru unnin langt utan þess tímaramma sem alla jafna er miðað við varðandi mögulegar refsingar félaga vegna óláta stuðningsmanna á leikjum.
Þó mun vera minnst á skemmdarverkin í langri atvikalýsingu eftirlitsmanns KSÍ þar sem önnur ólæti, á meðan á leik stóð, eru rakin. Þar mun meðal annars vera horft til þess að stuðningsmenn beggja liða kveiktu á blysum. Í eitt skiptið, eftir þriðja og síðasta mark Blika í 3-0 sigrinum sem tryggði þeim titilinn, þurfti Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkinga, að fjarlægja logandi blys af gervigrasvellinum eins og sjá má hér að neðan.
Aga- og úrskurðarnefnd gefur væntanlega bæði Víkingi og Breiðabliki færi á að segja sína hlið áður en hún fundar næsta þriðjudag, þar sem úrskurðar má vænta.