Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur tilkynnti síðastliðinn miðvikudag bærinn yrði opinn almenningi en hann hafði verið lokaður öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum bæjarins, fyrirtækja, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa frá því í nóvember í fyrra. Þó með þeim fyrirvara að hættustigi kunni að verða lýst aftur yfir vegna jarðhræringa.
Sjá einnig: Opna Grindavík öllum eftir helgi
Nefndin vísaði til þess að bærinn væri á lægsta almannavarnastigi og að stór hluti hans væri alveg óraskaður. Framkvæmdir hefðu átt sér stað í sumar við kortlagningu hættusvæða, að fylla í sprungur og gera við götur og gangstéttir.
Í tilkynningu á vef Ferðamálastofu segir að gera megi ráð fyrir að það sé áhugi á því að sjá hvaða áhrif jarðskjálftar og eldgos hafi haft á svæðið, bæði meðal almennings og ferðaþjónustuaðila sem hafi hug á að bjóða upp á ferðir um svæðið og bæinn.
Í ljósi þess brýnir Ferðamálastofa fyrir fólki að sýna ábyrga ferðahegðun í ferðum um bæinn. Mikilvægt sé að skipuleggja og framkvæma ferðirnar af virðingu við samfélagið á svæðinu.
Taka þurfi tillit til þess að þegar farið sé um svæðið í Efrahópi, sem hraun rann yfir í janúar, að þar hafi fjölskyldur misst aleigu sína.
„Sýnum íbúum tillitssemi, göngum ekki um lóðir eða kíkjum á glugga yfirgefinna húsa svo dæmi séu tekin,“ segir á vef Ferðamálastofu.