Sport

Rakel María endaði upp á spítala: „Ég á bara ó­trú­lega erfitt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel María Hjaltadóttir var algjörlega niðurbrotin en hnémeiðsli urðu til þess að hún varð að hætta snemma.
Rakel María Hjaltadóttir var algjörlega niðurbrotin en hnémeiðsli urðu til þess að hún varð að hætta snemma. @rakelmariah

Rakel María Hjaltadóttir var sú fyrsta til að hætta keppni í íslenska hópnum á heimsmeistaramóti landsliða í bakgarðshlaupum.

Fjórtán eru enn að hlaupa en Rakel datt illa í hálkunni í nótt. Hún reyndi að haltra í markið en gat svo ekki meira. Hún hætti eftir 21 hring en var þá búin að hlaupa meira en 140 kílómetra.

Rakel er meidd á hné og endaði upp á spítala til að láta athuga með meiðslin. Hún er algjörlega miður sín, en hún greinir frá þessu á Instagram í sögu-viðmóti. Þar keyrir Guðmundur kærasti hennar hana um í hjólastól og fer hún yfir stöðuna.

„Stundum gengur ekki allt upp. Ég datt svo oft. Hnéð er bara alveg farið og ég get ekki stigið í það. Þannig að ég varð að hætta,“ sagði Rakel María grátklökk.

„Það er ógeðslega fúlt og ég á bara ótrúlega erfitt. Mig langar að geta hlaupið einhvern tímann aftur og ég sá það að ég var aldrei að fara að ná markmiðunum mínum. Ég tók frekar þá ákvörðun að hætta keppni,“ sagði Rakel.

„Þetta er svo grátbroslegt,“ sagði Rakel síðan í öðru myndbandi þar sem Guðmundur kærasti hennar keyrir hana um í hjólastólnum á sjúkrahúsinu.

„Þetta átti ekki að enda svona snemma og átti alls ekki að enda svona,“ sagði Rakel.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×