Innlent

„Það þarf að nýta auð­lindir landsins, það er al­veg ljóst“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Halla Hrund mun að öllum líkindum verma fyrsta sæti framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Halla Hrund mun að öllum líkindum verma fyrsta sæti framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Vísir/Vilhelm

Halla Hrund Logadóttir fráfarandi orkumálastjóri og verðandi oddviti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi segir alveg ljóst að nýta þurfi auðlindir landsins, en nýtingin þurfi að vera ábyrg. Hún segir að Framsókn sé samvinnuflokkur sem geti unnið þvert á pólitíska hagsmuni.

„Það er alveg ljóst að það þarf að vera mikil sókn framundan hjá Framsókn,“ svaraði Halla Hrund, þegar spurt var um það í kvöldfréttum Stöðvar 2 hvort stefna Framsóknar í orkumálum yrði nú varkárari en verið hefur.

„En varðandi auðlindamálin þá eru þau sannarlega eitt af mínum lykilerindum, en það hefur samt verið þannig að á þeim tíma sem ég hef verið orkumálastjóri hefur bæði verið mikil sókn í jarðhitanum, og ég hef veitt leyfi fyrir fleiri megavöttum á síðustu þremur árum en var gert tíu árin á undan, þannig það er nú gömul mýta að þetta þýði varkárni í virkjunum,“ segir hún.

Auðvitað muni flokkurinn þó tala fyrir ábyrgri auðlindanýtingu sem skili sér til samfélagsins.

Hún segir að hennar meginerindi séu að passa upp á að við séum að fá sem mestan ábata fyrir samfélagið okkar úr ólíkum auðlindum.

„Ég hef líka stórt og mikið landsbyggðarhjarta og það gleður mig mjög að fá að leiða Suðurkjördæmi, sem er ótrúlega fjölbreytt og spennandi kjördæmi sem á gríðarlega mikið inni,“ segir Halla.

Þá segir hún að húsnæðismálin séu orðin þannig að venjulegt fólk sé að keppa við fagfjárfesta á opnum húsum. „Þetta er eitthvað sem er grundvallarskynsemismál að leysa og eitthvað sem ég mun beita mér fyrir,“ segir Halla Hrund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×