Sport

Græddi fimm­tíu þúsund krónur á sekúndu þrátt fyrir að skíttapa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússinn Daniil Medvedev náði sér ekki á strik á móti Jannik Sinner á mótinu í Riyadh í Sádi Arabíu.
Rússinn Daniil Medvedev náði sér ekki á strik á móti Jannik Sinner á mótinu í Riyadh í Sádi Arabíu. Getty/Richard Pelham

Þátttaka rússneska tennisspilarans Daniil Medvedev á móti í Sádí Arabíu komst í fréttirnar. Alls ekki þó fyrir frammistöðu kappans sem var ekki merkileg.

Medvedev mætti suður á Arabíuskagann til að keppa á „Six Kings Slam“ tennismótinu. 

Mótið er boðsmót fyrir sex af stærstu tennisstjörnum heims og sigurvegarinn vinnur sér inn 4,8 milljónir punda eða um 862 milljónir króna.

Auk Medvedev tóku þeir Jannik Sinner, Carlos Alcaraz, Holger Rune, Novak Djokovic og Rafael Nadal þátt í þessu móti.

Fyrir það að taka þátt í mótinu þá fékk Medvedev, eins og allir keppendurnir sex, 1,15 milljónir punda í sinn hlut. Þetta fengu þeir fyrir það að mæta á staðinn sama hvernig þeim gekk.

Málið er að Rússinn var sleginn út eftir aðeins 69 mínútna leik en hann mætti Sinner, sem er í efsta sæti heimslistans.

Fólk var því fljótt að reikna það út að Medvedev fékk fimmtíu þúsund krónur fyrir hverja sekúndu og þrjár milljónir fyrir hverja mínútu á þessu móti.

Ekki slæm laun fyrir það að láta rústa sér inn á tennisvellinum.

Carlos Alcaraz og Jannik Sinner spila til úrslita á mótinu eftir að Alcaraz sló út landa sinn Rafael Nadal út úr undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×