Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, birti pistil á Vísi þar sem hún sagði mikilvægt að kjarasamningar opinberra starfsmanna raski ekki þeirri kjarasátt sem hefði náðst fyrr á árinu. Kennarar vilja sömu kjör og háskólamenntaðir sérfræðingar á almenna vinnumarkaðnum. Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs hjá SA, segir lækkun vaxta og verðbólgu samfélagslegt verkefni.
„kennarar gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og við skiljum það vel að þeir sem sækjast eftir þessum störfum vilji einnig hafa eðlileg og góð kjör en við höfum einnig gert kjarasamninga á vinnumarkaðnum sem hafa það að markmiði sem stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Þetta er samfélagslegt verkefni sem allir þurfa að taka þátt í. Kennarar eru ekki eyland í kjarabaráttunni vegna þess að það eru fjölmargir aðrir hópar sem eiga eftir að klára sína samninga og horfa til þess sem samið verður um við kennara þannig að viðbótarhækkanir til kennarastéttarinnar sem getur raskað þessu jafnvægi og kjarasátt getur haft mjög alvarleg áhrif.“
Almenni vinnumarkaðurinn sé í samkeppni við ríkið um háskólamenntaða starfsmenn.
„Þar sem ríkið hefur verið jafnvel að leiða launamál og á sama tíma að bjóða ýmis hagstæðari kjör þannig að verulegar hækkanir sérfræðinga hjá ríkinu getur aftur þá leitt til launaskriðs og aukins launaskriðs hjá almenna vinnumarkaðnum sem getur haft neikvæð áhrif á þróun verðbólgu og þar með vaxta.“
Þá segir hann að samanburður kennara við háskólamenntaða á almennum vinnumarkaði sé snúinn.
„Mjög stór hluti háskólamenntaðra á almennum vinnumarkaði eru á pakkalaunum þar sem öll yfirvinna er innifalin í þeirra mánaðalaunum. Því er ekki hægt að bera saman dagvinnulaun kennara við laun háskólamenntaðra vegna þess að það getur verið mun meiri og lengri vinnutími innifalinn í launum háskólamenntaðra á almennum vinnumarkaði. Auk þess eru margir kostnaðarliðir sem hvíla á opinberum vinnuveitendum umfram almenna og það er eðlilegt að horfa til þess kostnaðar þegar kjör eru borin saman.“