Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri bók með endurminningum Lisu Marie sem lést í janúar í fyrra 54 ára gömul. Fram kemur í umfjöllun People að Lisa Marie hafi búið til upptökur með endurminningum sínum og að dóttir hennar Riley Keough hafi tekið þær saman í bók að henni látinni.
Sagðist algjörlega dolfallinn
Fram kemur í bókinni að Presley og Jackson hafi þekkst frá unga aldri. Þau hafi farið að stinga saman nefjum árið 1994 eftir að Jackson hafi lýst því yfir að hann væri algjörlega dolfallinn yfir henni.
„Michael sagði við mig: „Ég veit ekki hvort þú hafir tekið eftir því en ég er algjörlega ástfanginn af þér. Ég vil að við giftum okkur og að þú gangir með börnin mín,“ er haft eftir Lisu Marie í bókinni. Bókin ber heitið From Here to the Great Unknown og kom út í dag.
„Hann sagði mér að hann væri enn hreinn sveinn. Ég held hann hafi kysst Tatum O'Neal og svo var eitthvað á milli hans og Brooke Shields en það var ekki líkamlegt fyrir utan koss. Hann sagði að Madonna hefði reynt að sofa hjá honum eitt sinn en að ekkert hafi gerst. Ég var skíthrædd því ég vildi ekki gera eitthvað vitlaust.“
Parið gifti sig í maí árið 1994. Þau skildu svo að borði og sæng rúmum tveimur árum síðan í ágúst árið 1996.