Guli dægurmálamiðillinn TMZ segjast hafa hjónabandsörðugleikana eftir þó nokkrum heimildamönnum.
Hjónin séu bæði tvö búin að segja sínum nánustu að sambandi þeirra sé lokið. Ekki er vitað hvað var valdur að sambandsslitunum né hvenær þau áttu sér nákvæmlega stað.
Sést hefur nokkrum sinnum til hins 47 ára gamla West þar sem hann hefur verið einn á ferð í Tókýó í Japan. Hann hafi lýst því yfir að hann hygðist flytja til borgarinnar og skilja við eiginkonu sína. Þá ku hin 29 ára Bianca hafa flogið til Ástralíu til að vera með fjölskyldu sinni. Slíkt telst óvenjulegt þar sem parið hefur verið nær óaðskiljanlegt frá því þau byrjuðu saman.
Síðast sást til hjónanna saman meðal almennings þann 20. september, eða fyrir sautján dögum síðan, þegar þau fóru saman í verslunarleiðangur í Tókýó.
Hafa vakið athygli fyrir klæðaburðinn
Kanye og Bianca giftu sig 20. desember 2022 í Palo Alto í Kaliforníu áður en þau voru einu sinni búin að tilkynna umheiminum samband sitt.
Síðan þá hafa hjónin verið eins og óaðskiljanleg eining og vakið töluverða athygli. Það hefur ekki síst verið vegna djarfs klæðaburðar Biöncu.
Því stefnir allt í annan skilnað Kanye en hann var áður giftur athafnakonunni Kim Kardashian og á með henni North, Saint, Chicago og Psalm West.