Íslenski boltinn

„Átti þetta tæki­færi skilið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hrafnildur fékk verðlaun fyrir það að vera efnillegust á Íslandsmótinu á laugardaginn. Hér má sjá formann KSÍ Þorvald Örlygsson afhenda henni hornið fræga.
Hrafnildur fékk verðlaun fyrir það að vera efnillegust á Íslandsmótinu á laugardaginn. Hér má sjá formann KSÍ Þorvald Örlygsson afhenda henni hornið fræga.

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir var valin efnilegasti leikmaður Bestu deildar kvenna í sumar og það af leikmönnum deildarinnar.

Hún mætti í uppgjörsþátt Helenu Ólafsdóttur á laugardagskvöldið eftir að Breiðablik hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í hreinum úrslitaleik gegn Val. Hún lék 23 leiki með Blikum á tímabilinu og skoraði í þeim þrjú mörk. Hrafnhildur hefur leikið 34 yngri landsleiki sem verður að teljast gríðarlegt magn.

„Ég held ég hafi spilað minn fyrsta landsleik 2021 og þetta er alveg slatti,“ segir Hrafnhildur.

„Ég var í Augnablik á þar síðasta tímabili og fékk síðan smá tækifæri á síðasta tímabili. En Nik er bara þannig þjálfari að ef þú stendur þig þá færðu tækifæri og ég átti þetta tækifæri skilið,“ segir Hrafnhildur sem hefur spilað mikið með Íslandsmeisturunum í sumar. Hún segist kunna vel við það að spila undir Nik Chamberlain þjálfara liðsins.

„Ég myndi segja að hann væri mjög sanngjarn þjálfari. Mér líður best í tíunni og sérstaklega í þessu tígulkerfi sem við spilum. Það hentar mér mjög vel.“

Hún segir að Blikarnir séu einfaldlega með geggjaðan hóp.

„Markmiðið mitt er að komast sem lengst og spila fyrir bestu lið heims. Mig langar að spila með A-landsliðinu en ég þarf að taka þessu hægt og rólega og þetta kemur bara.“

Hér að neðan má sjá viðtalið úr þættinum á laugardagskvöldinu.

Klippa: „Átti þetta tækifæri skilið“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×