Fótbolti

Fyrir­liðinn Popp leggur lands­liðs­skóna á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
 Alexandra Popp og Glódís Perla Viggósdóttir í baráttunni.
 Alexandra Popp og Glódís Perla Viggósdóttir í baráttunni. Getty Images/Gerrit van Cologne

Alexandra Popp, fyrirliði þýska landsliðsins í fótbolta og samherji Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá Wolfsburg, hefur tilkynnt að hún muni leggja landsliðsskóna á hilluna síðar í þessum mánuði. Frá þessu greindi hin 33 ára gamla Popp í dag, mánudag.

Fyrirliðinn heitir fullu nafni Alexandra Popp-Höppe og hefur spilað fyrir A-landslið Þýskalands frá árinu 2010. Alls hefur hún spilað 144 leiki og skorað 67 mörk. Þá spilaði hún á sínum tíma 47 leiki fyrir yngri landslið Þýskalands og skoraði í þeim 37 mörk.

A-landsleikirnir verða þá að öllum líkindum 145 eða jafnvel 146 þar sem Þýskaland mætir Ástralíu þann 25. október næstkomandi og Ástralíu þremur dögum síðar. Eftir það fara landsliðsskór Popp upp í hillu.

Popp hefur tekið þátt í fjórum heimsmeistaramótum með Þýskalandi. Þá var hún í liðinu sem vann Ólympíuleikana 2016 sem og því sem tapaði fyrir Englandi í úrslitum EM 2022.

Þessi magnaði leikmaður er samningsbundin Wolfsburg út þetta tímabil. Hún hefur spilað fyrir liðið síðan 2012 og tvívegis unnið Meistaradeild Evrópu, sjö sinnum orðið þýskur meistari og tíu sinnum bikarmeistari.

Einnig vann Popp Meistaradeild Evrópu sem og bikarkeppnina í tvígang með fyrsta félagi sínu, FCR 2001 Duisburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×