Fótbolti

Freyr um rangan frétta­flutning: „Þetta særði mig mjög mikið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr á blaðamannafundinum.
Freyr á blaðamannafundinum. KV Kortrijk

Freyr Alexandersson, þjálfari belgíska efstu deildarliðsins Kortrijk, hefur fengið afsökunarbeiðni eftir fréttaflutning þess efnis að hann væri að fara taka við Cardiff City sem spilar í ensku B-deildinni í knattspyrnu.

Freyr var gríðarlega ósáttur með fréttaflutninginn og lét í sér heyra á X-síðu sinni, áður Twitter. Þá sendi félagið jafnframt frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Á blaðamannafundi á föstudag fór Freyr yfir málið og sagði það sem lá sér á hjarta.

„Þetta særði mig mjög mikið. Þegar þú vinnur með blaðamönnum líkt og við gerum þá er það gert með hreinskilni og traust að leiðarljósi. Áður en þú flytur fréttir þá þarftu að athuga þær og athuga þær aftur,“ sagði Freyr og hélt áfram.

„Það hafði hins vegar enginn samband við mig. Ég get fullvissað ykkur um að ef fólk hefur samband við mig þá mun ég ekki ljúga að ykkur. Ég veit vel að það gera allir mistök í starfi en ef þú gerist sekur um slíkt þá ættir þú einnig að geta beðist afsökunar.“

Á vefsíðu Kortrijk kemur fram að blaðamennirnir tveir sem fluttu fyrstir fréttirnar hafi beðist afsökunar á fréttaflutningi sínum og þar með sé því máli lokið að hálfu félagsins.

Kortrijk er 8 stig að loknum 8 umferðum og hefur liðið nú leikið fjóra leiki án sigurs. Á sunnudag mætir liðið Royale Union SG sem situr í 12. sæti með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×