Atvinnulíf

„Myndi al­veg segja að hjartað í mér hafi verið í buxunum“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er krefjandi að standa fyrir framan hóp fjárfesta og skýra út á sem stystum tíma hver lausnin er sem þú vilt fá fjárfesta til að fjárfesta í. En þetta þurfa frumkvöðlar þó oft að gera. Elva Sara Ingvarsdóttir stofnaði fyrirtækið TAPP sem þróar nú lausn fyrir verktaka og fyrirtæki í kvikmyndageiranum. 
Það er krefjandi að standa fyrir framan hóp fjárfesta og skýra út á sem stystum tíma hver lausnin er sem þú vilt fá fjárfesta til að fjárfesta í. En þetta þurfa frumkvöðlar þó oft að gera. Elva Sara Ingvarsdóttir stofnaði fyrirtækið TAPP sem þróar nú lausn fyrir verktaka og fyrirtæki í kvikmyndageiranum.  Vísir/Vilhelm

„Já ég myndi alveg segja að hjartað í mér hafi verið í buxunum,“ segir Elva Sara Ingvarsdóttir og hlær.

„Enda töluverð áskorun í því fólgin að kynna það sem þú hefur svona mikla ástríðu fyrir, á sem stystum tíma.“

Meira að segja á ensku.

Því já, eitt af því sem sprotar og fólk í nýsköpunarheiminum þarf að þjálfa sig vel í er hin svokallaða lyfturæða.

Sem oftar en ekki er haldin fyrir hóp fjárfesta.

Elva Sara er stofnandi TAPP, sem í raun er stytting á ,,time-app.“ Meðstofnendur Elvu Söru eru Sigríður Rósa Bjarnadóttir og Ragnar Pétursson.

„Við höfum öll starfað í kvikmyndagerð og það var í rauninni þar sem við vorum að upplifa ákveðna þörf á kerfi sem þessu,“ segir Elva Sara.

Í Atvinnulífinu í gær og í dag, fjöllum við um lyfturæðuna svokölluðu og þá áskorun sem frumkvöðlar þurfa að takast á við, að standa andspænis fjárfestum og öðrum til að kynna vörur sínar. Viðmælendur eru þátttakendur í SuperNova, en fjárfestadagur viðskiptahraðalsins Startup SuperNova var haldinn í Grósku síðastliðinn föstudag.

Að púsla saman tíma og rúmi

Elva Sara hefur í nægu að snúast. Enda með tvö lítil börn heima: tveggja ára og fjögurra. Blessunarlega segist hún vera með sterkt bakland og það skipti sköpum.

„Þá eru mamma og pabbi að hlaupa í skarðið þegar ég er ekki að ná að sækja á tíma,“ segir Elva Sara og brosir.

En að ná utan um öll verkefni, hafa yfirsýn og gott fjárhagslegt utanumhald, er einmitt það sem starfsemi TAPP gengur út á. Sem aftur sparar tíma og fyrirhöfn og auðveldar fólki að einbeita sér frekar að því sem fólk í raun þarf að gera.

Bæði verktaka í kvikmyndageiranum og fyrirtæki sem þessir verktakar starfa fyrir.

Í kynningartexta um TAPP segir:

„TAPP er heildstæður vettvangur fyrir gigg-umhverfið. Lausnin er sérsniðin hugbúnaðarlausn sem mun gera verkefnastjórnun og fjárhagslegt utanumhald skilvirkara og koma á opnari og auðveldari samskiptum milli verktaka og verkkaupa. TAPP einfaldar samningsgerð, tímaskráningu, sjálfvirknivæðir reikningagerð, býður upp á starfatorg og eykur aðgengi að raunstöðu verkefna.

Vitað er að gigg-umhverfið er sá geiri í heiminum sem er að vaxa hvað hraðast. Ekki síst í kjölfar Covid.

Elva Sara fékk þó hugmyndina nokkuð fyrir heimsfaraldurinn.

„Ég er mikil excel-manneskja og þar sem ég var búin að átta mig á því hversu laust í reipunum utanumhald verktaka í kvikmyndagerð getur verið, bjó ég til excelskjal sem ég gat notað og fyllt út og látið excelinn reikna allt út fyrir mig og svo framvegis,“ segir Elva Sara og bætir við:

„Ég leyfði síðan kollegum mínum í geiranum að nota þetta excelskjal en staðreyndin er auðvitað sú að fólk kann mismikið á excel.“

Úr varð hugmyndin að TAPP.

Sjáið þið fyrir ykkur að TAPP muni nýtast fleiri geirum en kvikmyndageiranum?

„Eitt af því sem KLAK hefur kennt okkur svo vel á SuperNova er hversu mikilvægt það er að halda skýrum fókus. Til að byrja með erum við því eingöngu að einblína á kvikmyndageirann, hvað sem síðar verður.“

Elva Sara segir kvikmyndageirann kalla á að oft sé verið að ráða mjög marga verktaka í verkefni í stuttan tíma. Flestir séu síðan að nota gamaldagsaðferðir við utanumhaldið sitt og enginn að gera eins. Hvorki reikninga, samninga né annað. TAPP leysir þetta.

Æfingin skapar meistarann

TAPP hefur fengið sprotastyrk frá Tækniþróunarsjóði og markaðsstyrk frá Atvinnumálum kvenna. Hún segist sannfærð um að styrkir sem þessir geri oft gæfumuninn hvað varðar það að nýsköpunarhugmyndir séu þróaðar áfram.

Þótt reyndin sé reyndar sú að oft þurfi að sækja um sömu styrkina í nokkur skipti.

„Þá lærði maður á því að sækja um aftur og aftur. Fékk endurgjöf sem nýttist í að gera enn betur þar til það loksins tókst að fá Já.“

Það sem gerir lyfturæðu Elvu Söru fyrir TAPP nokkuð flókna er að í sem stystu máli, þarf hún að kynna nýja lausn sem er bæði fyrir fyrirtækin í kvikmyndageiranum og fyrir verktakana sem í geiranum starfa.

Þar eru má segja flestir að nota gamaldags aðferðir við utanumhaldið sitt og enginn að gera eins. 

Ráðningasamningar geta verið alls konar, reikningar verið alls konar og svo framvegis og svo framvegis.“

Elva Sara segir stóru áskorunina fyrir hana vera að ná að skýra allt út á sem stystum tíma, en finnast maður þó hafa frá svo miklu að segja eða margt til að skýra út.

„Við erum til dæmis með tvær hliðar á okkar lausn, þar sem notendurnir hafa ólíkan ávinning af TAPP. Að koma þvi vel til skila hvað hver og einn græðir á notkun lausnarinnar en fá svona takmarkaðan tíma til að gera það, er krefjandi.“

Elva Sara segir að til þess að aðstoða sprotana sem tóku þátt í viðskiptahraðlinum, hafi KLAK unnið mikið með að sprotarnir færu vel yfir grunn lausnarinnar. Því þegar vandamálið er útskýrt í stuttu en skýru máli, á fólk auðveldara með að skilja lausnina.

Loks var haldin general prufa, áður en stóri viðburðurinn var síðan haldinn.

„Þá æfðum við okkur með því að fara með kynninguna okkar fyrir framan hóp af fólki hjá Nova. Sem var orðið mun auðveldari því að þá var maður orðinn miklu öruggari vegna þess að við vorum búin að æfa okkur svo oft.“

Sjálf segist Elva búa sér til handrit.

„Ég bý til handrit sem ég les upphátt,“ segir Elva og útskýrir að það sé ekki nóg að lesa ræðuna bara í hljóði.

„Síðan þegar ég er búin að lesa þetta handrit aftur og aftur og nánast farin að kunna það, veit ég að ég get frekar farið að slaka aðeins á og leyft mér að orða einstakar setningar öðruvísi og svona. Því þá er maður orðinn öruggari um hvað maður ætlar að segja nákvæmlega.“

Sem skiptir svo miklu máli þegar ræður og kynningar eiga að vera svona stuttar.

Það sem virkar best fyrir Elvu Söru er að búa til handrit fyrir lyfturæðuna og lesa handritið upphátt. Aftur og aftur. Þar til hún er orðin nógu kunnug handritinu til að geta leyft sér að breyta orði og orði eða slaka á, án þess að gleyma nokkru.Vísir/Vilhelm

Góðu ráðin: Að hugsa stórt

Elva segist hafa lært það á síðustu mánuðum, að undirbúningur þarf helst að vera fyrir lyfturæðuna.

„Snemma á þessu ári gafst mér tækifæri til að vera með kynningu fyrir TAPP á Fjártækniráðstefnu í Svíþjóð. Þetta boð kom frekar óvænt upp og á einni viku þurfti ég að gera allt og græja sem sneri að þessari ferð,“ segir Elva Sara og bætir við:

„Horfandi til baka, vitandi það sem ég hef lært núna á hraðli SuperNova geri ég mér grein fyrir því að þetta var of stuttur tími fyrir mig að vinna í og æfa lyfturæðuna.“

Annað gott ráð sem Elva Sara gefur snýr að því að ná í gegn til fjárfesta.

„Á svona viðburðum eins og var í Grósku er samankominn hópur af fjárfestum sem eru allir að leita að áhugaverðum verkefnum sem passa þeirra fjárfestingastefnu. Til dæmis að fjárfesta í sprotum sem vinna að grænum lausnum eða sprotum sem eru að vinna í tæknilausnum eins og við erum að gera.“

Galdurinn er að sigta út réttu aðilana fyrir tæknilausnirnar.

„Að reyna að ná tengslum við þá aðila sem eru að leita af lausnum af þeirri tegund sem maður er sjálfur að vinna að getur því skipt miklu máli.“

Samkeppnin er því mikil.

Að finna réttu fjárfestana snýst þó ekki aðeins um að fá peninginn til að þróa vöruna áfram. 

Því fjárfestar búa margir hverjir yfir gífurlega mikilli þekkingu, sem oft er mikilvægur liður fyrir sprota til að ná að vaxa. 

Fjárfestar eru því oft mjög mikilvægir hvað varðar ýmiss konar hjálp.“

En hvernig finnst þér að standa að kynningu á ensku?

„Mér hefur reyndar ekki fundist það neinn þröskuldur. Frekar þetta atriði með að ná að segja sem mest á sem skemmstum tíma,“ svarar Elva Sara.

Af TAPP er það að frétta að nú þegar er einn aðili í kvikmyndageiranum búinn að nota TAPP við framleiðslu á kvikmynd.

„Það styttist svo í að sjálf varan okkar komi út,“ segir Elva Sara en þess má geta að TAPP kerfið er bæði hannað til að nota í tölvu og sem app.

Hvar sérðu TAPP fyrir þér eftir 5-10 ár?

„Ég myndi vilja að þá væru allir í kvikmyndageiranum á Íslandi farnir að nota TAPP, til viðbótar við aðila í Bandaríkjunum, Bretlandi og annars staðar í Evrópu,“ segir Elva Sara og brosir og bætir síðan við:

„Það skiptir svo miklu máli að dreyma stórt. Að hafa alltaf trú á að lausnin sem verið er að þróa muni geta náð mjög langt. Og ég trúi því að það muni TAPP gera.“


Tengdar fréttir

„Fjárfestar eru bara venjulegt fólk“

„Ég viðurkenni að fyrst var ég mjög óöruggur. Velti fyrir mér hvort ég væri nógu góður. Hvort varan mín væri nógu góð. Fjárfestar virka einhvern veginn á mann eins og þeir hljóti að vera einhverjir svakalegir risar,“ segir Geoffrey Stekelenburg, stofnandi Neurotic sprotafyrirtækis sem starfrækt er í Grósku.

Ástin laðar að: Lúpínugallabuxur markmið næsta árs

„Ég hafði ekki hugmynd um hvað það væri langt á milli Blönduós og Skaftafells. Tók rútuna frá Blönduósi til Reykjavíkur og hann sótti mig þangað, búinn að keyra alla leið frá Skaftafelli til Reykjavíkur að sækja mig,“ segir Alice Sowa og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×