Sport

Sögu­legur dagur er Thelma sópaði til sín gull­verð­launum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thelma Aðalsteinsdóttir kom, sá og sigraði á Norður-Evrópumótinu í fimleikum í dag.
Thelma Aðalsteinsdóttir kom, sá og sigraði á Norður-Evrópumótinu í fimleikum í dag. Fimleikasamband Íslands

Fimleikakonan Thelma Aðalsteinsdóttir ritaði nafn sitt í sögubækur íslenskra íþrótta í dag ere hún gerði sér lítið fyrir og vann til gullverðlauna í öllum fjórum greinunum sem keppt var í á Norður-Evrópumótinu í fimleikum.

Keppt var í stökki, gólfæfingum, tvíslá og jafnvægisslá og komst Thelma í úrslit á öllum áhöldum.

Thelma hóf daginn á því að tryggja sér gull í stökki þar sem hún nældi sér í 13,100 stig, eða 0,150 stigum meira en Heisha Abdullah Lockert sem hafnaði í öðru sæti.

Þetta var þó aðeins upphafið af því sem átti eftir að verða sögulegur dagur. Thelma tryggði sér einnig gull á hinum þremur áhöldunum og hafði nokkra yfirburði á tvíslá og í gólfæfingunum. Hildur Maja Guðmundsdóttir komst einnig í úrslit í gólfæfingum og hafnaði í fjórða sæti.

Thelma náði þar með besta árangri Íslands frá upphafi, en hún hafnaði einnig í öðru sæti í undankeppninni sem fram fór í gær og vann því til verðlauna í öllum þeim keppnum sem hún tók þátt í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×