Sport

Thelma Norður-Evrópumeistari í stökki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norður-Evrópumeistarinn Thelma Aðalsteinsdóttir.
Norður-Evrópumeistarinn Thelma Aðalsteinsdóttir. fimleikasamband íslands

Fimleikakonan Thelma Aðalsteinsdóttir hefur heldur betur átt góða helgi á Norður-Evrópumeistaramótinu.

Í gær vann Thelma silfur í fjölþraut og í dag gerði hún sér lítið fyrir og vann gullið í stökki. Hún er því Norður-Evrópumeistari.

Thelma fékk 12,750 í einkunn, 0,200 meira en Adeliina Siikala frá Finnlandi og hin írska Halle Hilton.

Þetta er annar Norður-Evrópumeistaratitill Thelmu en hún vann gull á tvíslá í fyrra.

Íslenska kvennalandsliðið vann brons í liðakeppninni. Auk Thelmu skipuðu Hildur Maja Guðmundsdóttir, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Lovísa Anna Jóhannsdóttir, Rakel Sara Pétursdóttir og Þóranna Sveinsdóttir íslenska liðið.

Karlalandslið Íslands endaði í 8. sæti. Íslenska liðið skipuðu þeir Atli Snær Valgeirsson, Ágúst Ingi Davíðsson, Dagur Kári Ólafsson, Jón Sigurður Gunnarsson, Lúkas Ari Ragnarsson og Valdimar Matthíasson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×