Í frétt Guardian segir að Starmer hafi þannig brotið á reglum þingsins sem gildi um gjafir og styrki. Þar kemur einnig fram að talsmaður forsætisráðuneytisins segir lista um styrki og gjafir hafa verið uppfærða um leið og þau fengu uppfærðar leiðbeiningar um hvað ætti að vera á listanum.
Styrkirnir sem hann þáði frá Alli nægðu fyrir persónulegum aðstoðarmanni við innkaup fyrir konu hans, fötum og breytingum á fötunum í aðdraganda og eftir kosningar í júlí.
Þingmenn Íhaldsflokksins í Bretlandi hafa krafist þess að rannsókn verði gerð á tengslum Alli og Starmer en Alli hefur styrkt Verkamannaflokkinn um hálfa milljón punda frá 2020.
Þá er haft eftir talsmanni forsætisráðuneytisins í frétt Guardian að þau hefðu leitað til yfirvalda með leiðbeiningar þegar þau tóku við völdum og að þau hafi talið sig vera að fylgja reglunum. Eftir frekara samtal hafi þau tilkynnt um fleiri gjafir og styrki.
Þá kemur fram í fréttinni að Alli hafi í síðasta mánuði fengið öryggispassa að skrifstofu og heimili forsætisráðherrans við Downing-stræti án þess þó að hafa nokkuð hlutverk innan ríkisstjórnarinnar. Málið vakti nokkra athygli og var sagt í fréttum að Alli hefði fengið „passa fyrir gler“ vegna þess að hann hafði styrkt flokkinn um klæðnað, húsnæði og gleraugu. Það er þó tekið fram í grein Guardian að ekki sé útlit fyrir brot á neinum reglum hvað það varðar.